Árshátíð nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands, NFFA, er í kvöld. Af þeim sökum er matsalur skólans lokaður í dag vegna undirbúnings en hádegisverður borinn fram fyrir framan matsalinn. Húsið opnar svo fyrir matargestum í kvöld kl. 17:45, en ballið er haldið á Gamla Kaupfélaginu þar sem húsið opnar kl. 22:00. NFFA stendur fyrir stórglæsilegri dagskrá sem hægt er að kynna sér nánar á Facebook-viðburði NFFA. Á morgun er miðannarfrí í FVA og því engin kennsla.

Á morgun verður Háskólalestin á ferðinni á Akranesi og mun hún vera hjá okkur í FVA frá kl. 10:00 til 11:30 í Gamla sal. Þar munu allir háskólar landsins kynna námsframboð sitt, sem telur yfir 500 námsleiðir. Nemendur, kennarar og námsráðgjafar verða á staðnum og allir velkomnir.

Í morgun var nemendum og starfsfólki skólans boðið upp á fyrirlestur um svefn. Viðburðurinn fór fram á sal skólans og þar fjallaði Dr. Erla Björnsdóttir um mikilvægi svefns fyrir líkamlega og andlega heilsu, dægursveiflu og áhrif hennar á frammistöðu, fór yfir algeng svefnvandamál og gaf viðstöddum góð ráð sem stuðla að bættum nætursvefni.

Einn þeirra viðburða Opinna daga sem fylltist strax var fuglaskoðunarferð sem farin var í gærdag í prýðisveðri. Í ferðinni sáust samtals 23 mismunandi fuglategundir, þar á meðal æður, álft, hávella, rauðhöfðaönd og þjóðarfugl Færeyinga, tjaldurinn, lét líka sjá sig.

Nokkrir nemendur nýttu Opna daga til að mála listaverk á vegg. Verkið er landslagsmynd og þykir einkar fagurt á að líta. Nú prýða listaverk nemenda þrjá veggi í skólanum, það elsta var málað árið 2012 og annað á Opnum dögum 2018.

Please publish modules in offcanvas position.