Í dag lýkur svokölluðum námsmatsdögum hér í FVA en þar sem fjölmargir áfangar eru nú símatsáfangar og nemendur þreyta mun færri lokapróf en áður tíðkaðist hafa námsmatsdagar leyst hið hefðbundna prófatímabil af hólmi. Á námsmatsdögum hafa nemendur fengist við fjölbreytt verkefni sem mörg hver eru í stærri kantinum.

Í hádeginu í dag hélt Nemendafélag Fjölbrautaskóla Akraness, NFFA, aðalfund sinn. Þar gerðu þeir Guðjón Snær Magnússon, fráfarandi forseti, og Ísak Máni Sævarsson, fráfarandi gjaldkeri, grein fyrir störfum félagsins liðið starfsár og fóru yfir ársreikning félagsins. Á fundinum voru einnig kunngerð úrslit nýafstaðinna stjórnarkosninga félagsins. Nýr forseti NFFA er Björgvin Þór Þórarinsson og með honum í stjórn eru þau Maron Snær Harðarson, Gylfi Karlsson, Oddný Guðmundsdóttir og Eyrún Sigþórsdóttir. 

Í dag halda útskriftarnemar skólans sitt lokahóf, dimissjón. Þau byrjuðu daginn á því að bjóða kennurum og starfsfólki skólans upp á dýrindis morgunverð á sal skólans og eftir nokkurt sprell innanhúss þar sem litið var við í kennslustundum og ýmsar þrautir leystar héldu þau af stað til Reykjavíkur þar sem dagskrá mun standa yfir í allan dag. Dagskránni lýkur svo í kvöld með dansleik á Gamla Kaupfélaginu.

Nýverið unnu nemendur í miðhópi málmiðngreina að tilraunaverkefni sem fólst í því að smíða frumgerð vörubíls. Nemendur fengu að velja sinn þátt í verkefninu eftir styrkleika hvers og eins. Sumir völdu til dæmis að fá að vinna við rennibekk og búa til hjólin og öxlana, aðrir völdu fræsara og fræstu til hjólaskála og þar fram eftir götunum. Útkoman er vel heppnuð eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Um helgina voru veitt verðlaun og viðurkenningar þeim nemendum sem bestum árangri náðu í Stærðfræðikeppni grunnskólanna, en sjálf keppnin fór fram þann 29. mars síðastliðinn. Keppnin í ár var óvenju jöfn og erfitt að skera úr um sæti. Efstu þrjú sætin í hverjum árgangi hlutu peningaverðlaun en efstu 10 sætin hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir frammistöðu.

Please publish modules in offcanvas position.