Nú standa yfir Opnir dagar hér í FVA og er dagskráin að venju fjölbreytt og skemmtileg. Á Opnum dögum víkur hefðbundin stundaskrá fyrir ýmsum viðburðum sem nemendur velja sjálfir. Í ár er til að mynda hægt að velja kvikmyndasýningar, fyrirlestra, hnefaleika, golf, Pub Quiz, menningarferðir, félagsvist, sjálfstyrkingu, Dungeons and dragons, borðspil, mála vegg, klifur og brauðbakstur með Finnboga, svo eitthvað sé nefnt.

Í morgun heimsótti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, Fjölbrautaskóla Vesturlands og var að vonum vel tekið á móti henni. Ávarpaði hún nemendur og starfsfólk á sal skólans og minnti á mikilvægi umhverfismála og einnig þess að líta öðru hverju upp úr símanum.

Athygli er vakin á því að í dag, 11. febrúar, er árlegur dagur íslenska táknmálsins. Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið hér á landi og er fyrsta mál um 200 
Íslendinga. Enn fleiri nýta sér íslenskt táknmál í daglegu lífi og starfi. Í tilefni dagsins hefur efni á íslensku táknmáli og um íslenskt táknmál verið gert aðgengilegt á heimasíðu Krakka-RUVStundin okkar verður táknmálstúlkuð sunnudaginn 17. febrúar, Krakkafréttir fjalla um daginn þann 11. febrúar og verður sá þáttur einnig táknmálstúlkaður.

Í morgun var haldinn skólafundur á sal skólans fyrir nemendur og starfsfólk. Fundurinn var á þjóðfundaformi og var markmið hans að vinna áfram með gildi skólans sem skilgreind voru fyrir tveimur árum á álíka fundi. Sem fyrr stýrði Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, vinnu fundarins. Í dag var áfram unnið með þessi gildi: jafnrétti, virðingu og fjölbreytileika, og merking þeirra fyrir skólastarfið skoðuð. Þegar niðurstöður þjóðfundarins liggja fyrir verða þær kynntar hér á heimasíðunni

Vorönn 2019 hefur farið vel af stað hér við FVA. Alls stundar 471 nemandi nám þessa önn, 276 karlar (58,6%) og 195 konur (41,4%). Meirihluti nemenda stundar dagskóla, eða 386, en auk þeirra eru 85 nemendur skráðir í kvöld- og helgarnám. 79% nemenda eru búsettir á Akranesi og nágrenni en annars koma nemendur víða að, þó aðallega frá höfuðborgarsvæðinu og af Vesturlandi. Flestir stunda nám á Opinni stúdentsbraut og Náttúrufræðabraut, um 90 á hvorri braut fyrir sig. Sem áður er iðnnámið mjög vinsælt og 154 nemendur eru skráðir í vélvirkjun, rafvirkjun og húsasmíði við FVA.

Please publish modules in offcanvas position.