Einn þeirra viðburða Opinna daga sem fylltist strax var fuglaskoðunarferð sem farin var í gærdag í prýðisveðri. Í ferðinni sáust samtals 23 mismunandi fuglategundir, þar á meðal æður, álft, hávella, rauðhöfðaönd og þjóðarfugl Færeyinga, tjaldurinn, lét líka sjá sig.

Nokkrir nemendur nýttu Opna daga til að mála listaverk á vegg. Verkið er landslagsmynd og þykir einkar fagurt á að líta. Nú prýða listaverk nemenda þrjá veggi í skólanum, það elsta var málað árið 2012 og annað á Opnum dögum 2018.

Dagskrá Opinna daga hélt áfram í gær en þá heimsótti hópur nemenda ásamt fararstjórum Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Þar fór hópurinn í fjósið, fékk kynningu á samstæðuvél og sömuleiðis kynningu á náminu á Hvanneyri. Hvanneyringar buðu síðan upp á skúffuköku.

Einn af mörgum fróðlegum viðburðum Opinna daga í ár var Málþing um umhverfismál sem umhverfisnefnd FVA stóð fyrir. Yfirskrift málþingsins var: Koma umhverfismál mér við?
Ýmislegt gagnlegt og áhugavert kom fram á málþinginu og sýna niðurstöður málþingsins ótvírætt að nemendur FVA láta sig umhverfismál svo sannarlega varða og vilja berjast fyrir úrbótum.

Dagskrá Opinna daga hélt áfram í dag, miðvikudag, og rétt í þessu bárust fréttaritara þau tíðindi að árlegu púttmóti er lokið. Hart var barist en það var hún Bára Valdís Ármannsdóttir sem bar sigur úr býtum og hampar nú farandbikar og hinum eftirsótta titli Púttmeistari FVA 2019. Í öðru sæti mótsins lenti Anna Þóra Hannesdóttir og þriðja sætið vermdi Fylkir Jóhannsson. Eru þeim öllum færðar innilegar hamingjuóskir með glæstan árangur.

 

Please publish modules in offcanvas position.