Fjölbreytt nám
Fjölbreytt nám
Jafnrétti - Virðing - Fjölbreytni
Jafnrétti - Virðing - Fjölbreytni

Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands, 14. útgáfa 2014
Starfshættir | Námsbrautir


 

Starfsbraut (ST1 og ST3)

Starfsbraut er ætluð nemendum með almenna námsörðugleika og nemendum sem hafa notið verulegrar sérkennslu í grunnskóla, verið í sérdeild eða í sérskóla (sbr. 34. gr. laga nr.92/2008 um framhaldsskóla, með vísun til 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra).
    Nám á starfsbraut er áætlað fjögur námsár en nemandi getur útskrifast eftir tvö námsár, kjósi hann það. Námið er skipulagt í áföngum þar sem fléttað er saman kjarnanámi í skóla og verknámi. Verknámið fer fram, eftir aðstæðum, innan skólans eða í atvinnulífinu.
    Áhersla er lögð á einstaklingsmiðaðar námsáætlanir og getur því nemandi lagt stund á námsáfanga á starfsbraut og á almennum námsbrautum framhaldsskóla, allt eftir möguleikum hvers og eins og aðstæðum í skólanum hverju sinni.
 

Markmið

Markmið náms og kennslu á starfsbraut eru að nemandi:
  • Fái einstaklingsmiðuð námstækifæri.
  • Auki sjálfstraust sitt, sjálfstæði og samskiptahæfni til daglegra athafna.
  • Efli hæfileika sína og færni til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs.
  • Auki möguleika sína til áframhaldandi náms við hæfi.
  • Fái tækifæri til þess að takast á við verkefni í samræmi við eigin færni og hæfileika.
  • Fái tækifæri til að stunda nám með ófötluðum nemendum eins og kostur er, meðal annars til þess að auka félagsleg samskipti ólíkra nemendahópa.
  • Fái tækifæri til að tengja saman nám og starfsþjálfun sína í skóla og á vinnustað eins og kostur er.
  • Þjálfi vinnufærni sína.
  • Fái aukin tækifæri til að komast út á vinnumarkað að loknu námi.

  

Skipan náms

Nám á starfsbraut er áætlað fjögur námssár og skiptast námgreinar í einingabæra áfanga. Einingar á starfsbraut eru einkum hafðar til viðmiðunar um hlutfallslegt vægi einstakra námsþátta í deildinni. Umfang námsins og kennslustundafjöldi nemandans á viku tekur mið af stöðu hans í námi.
    Á starfsbraut er námið bæði bóklegt og verklegt:

Bóklegt nám: Mikilvægt er að veita nemendum starfsbrautar kennslu og stuðning sem þeir þurfa á að halda og tök eru á að veita ýmist með því að bjóða fram nám á starfsbraut eða veita þeim einstaklingsstuðning á námsbrautum framhaldsskólans. Huga þarf að námsmarkmiðum nemandans og möguleikum hans til þess að taka einstaka áfanga af öðrum námsbrautum skólans. Í sumum tilvikum geta starfsbrautarnemar numið almenna áfanga á eigin forsendum og fengið þá metna sem áfanga á starfsbraut
    Mikilvægt er að forráðamenn nemandans, ásamt umsjónarkennara, námsráðgjafa og/eða stuðningsfulltrúa komi að skipulagi námsins með nemandanum.

Verklegt nám:  Mikilvægt er að skipuleggja verklegt nám nemandans eins og kostur er út frá þeim markmiðum sem skilgreind eru fyrir hvern einstakling. Verknám getur falið í sér verklega áfanga innan skólans og/eða starfsþjálfun á vinnustað. Starfsþjálfunin er fólgin í skilgreindum viðfangsefnum sem valin eru í samræmi við getu og áhuga nemandans og í samvinnu við atvinnulíf og miða meðal annars að því að efla færni nemandans við afmörkuð störf eða starfsþætti.
    Við skipulagningu námsins skal taka mið af óskum, áhugasviði og þörfum nemandans, náms- og félagslegri stöðu, óskum og áliti foreldra ásamt þeim möguleikum sem umhverfið býður upp á hverju sinni varðandi störf, tómstundir og fleira.
    Í séráföngum brautarinnar  er nemendum kennt í litlum hópum. Þeir nemendur sem ekki geta nýtt sér hópkennslu fá einstaklingskennslu eftir því sem aðstæður leyfa.
 

Liðveisla

Til að auðvelda nemendum á starfsbraut þátttöku í félagslífi skólans hefur reynst vel að ráða áhugasama ófatlaða nemendur til að aðstoða þá.  Þessi starfsemi hefur fram til þessa verið í samvinnu við liðveislu Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og sveitarfélög viðkomandi nemenda.
 

Námsmat

Nemendur á starfsbraut fylgja kennsluáætlunum sem eru skipulagðar fyrir hvern og einn sérstaklega. Í upphafi eru sett fram einstaklingsmiðuð markmið sem byggjast á óskum og þörfum nemandans, námsferli hans og möguleikum skólans. Þessar áætlanir eru teknar til reglulegrar endurskoðunar á námstímanum og ný markmið sett ef á þarf að halda. Umsögn að loknu námi byggist í aðalatriðum á einstaklingsmati.
   Námsmat í sérdeildum byggist á þeim markmiðum sem sett eru fram í hverjum áfanga og þeim kennsluaðferðum sem beitt hefur verið. Námsmat á að miðast við sem flesta þætti náms og kennslu.  Gert er ráð fyrir því að nemandinn fái umsögn um stöðu sína og almennar framfarir í námi.
 
 
 
 

Please publish modules in offcanvas position.