Mjög áríðandi er að virða nokkrar grundvallarreglur við gerð hvers konar heimildaritgerða. Sömu reglur eiga við þó að úrlausn sé skilað í öðru formi svo sem í fyrirlestri eða á vefsíðum.

Það er algerlega bannað að stela texta einhvers annars og gera að sínum. Sá sem les ritgerðina á aldrei að vera í vafa um hver hafi samið textann eða hvort einstakir hlutar eru eftir ritgerðarsmiðinn eða teknir upp eftir einhverri heimild. Ritgerðarsmiður þarf að venja sig á að gera skýran greinarmun á eigin orðum og annarra. Þetta getur verið talsverð list en hana verða allir að tileinka sér sem hyggja t.d. á frekara nám eftir framhaldsskóla. Fyrst verður fólk að gera sér grein fyrir merkingu tveggja hugtaka:

Tilvitnun: Eitthvað er tekið upp eftir annarri heimild.

Tilvísun: Upplýsingar sem fylgja tilvitnun og greina frá hvaðan efnið er fengið.

Tilvitnanir skiptast í tvo flokka:

Bein tilvitnun er það nefnt þegar eitthvað er tekið orðrétt upp eftir heimild. Beinar tilvitnanir þarf að auðkenna með gæsalöppum eða afmarka textann á annan hátt. Þegar tilvitnun er auðkennd með tilvitnanamerkjum má engu breyta í orðalagi. Þó má stytta textann eða fella úr honum ef það er sýnt með sérstökum úrfellingamerkjum, t.d. þrem punktum.

Óbein tilvitnun nefnist það þegar efni er endursagt nákvæmlega en með breyttu orðalagi. Stundum er þá heimildin kynnt í leiðinni.

Tilvísanir

Á eftir hverri beinni tilvitnun þarf að fylgja tilvísun, þ.e. upplýsingar um það hvaðan tilvitnun er tekin en frágangur þeirra getur verið svolítið mismunandi. Nefna má þrenns konar afbrigði:

  1. (Heimild og blaðsíðutal)

          Þessi háttur er hafður ef ritið er t.d. eftir marga höfunda.

          Dæmi: Íslenska Alfræðibókin, III bindi, bls. 121.

  1.      (Höfundur, Titill, blaðsíðutal)

          Dæmi: Þórbergur Þórðarson: Íslenskur aðall, bls. 27.

Þessi aðferð er m.a. algeng íslenskum sagnfræðiritum en ef hið tilvitnaða rit er tímaritsgrein er titill hennar hafður innan gæsalappa.

  1. (Höfundur, útgáfuár, blaðsíðutal)

          Dæmi: (Michel Foucault, 2003, s. 80)

Þetta er sá háttur sem yfirleitt er mælt með í handbókum og hentar bæði við greinar og heilar bækur. Þetta fyrirkomulag er stundum nefnt APA-kerfið og er m.a. algengast í ritum um félagsvísindi.

Tilvísanir samkvæmt APA kerfinu eru jafnan hafðar í sviga inni í texta. Hinar fyrrnefndu 1 og 2, eru oftast hafðar neðanmáls (footnotes í Word) en það er þó breytilegt, sumir hafa sérstaka tilvísanaskrá aftast (endnotes í Word).

Nemendur verða að sætta sig við að innan einstakra námsgreina geta ríkt mismunandi kröfur um frágang en í rauninni skiptir ekki miklu máli hvaða fyrirkomulag þeir nota hverju sinni. Aðalatriðið er að gæta samræmis og sýna að maður skilji og virði þá reglu að vísa til heimilda.

Þessar tilvísanir eiga að duga til að hægt sé að finna frekari upplýsingar um heimildirnar sjálfar í sérstakri heimildaskrá aftast í ritgerðinni.

Dæmi (tilvísun sýnd innan sviga):

Bein tilvitnun:

Á Íslandi hafa orðið yfir 200 eldgos síðan land byggðist." (Gunnar Karlsson, 2002, Fornir tímar, bls. 7.)

Óbein tilvitnun:

Hér á landi hafa orðið yfir 200 eldgos frá landnámi. (Gunnar Karlsson, 2002, Fornir tímar, bls. 7.)

Þarf tilvísun að fylgja hverri óbeinni tilvitnun?

Það getur verið talsvert snúið að vita hvenær þarf nauðsynlega að vísa til heimilda á eftir óbeinum tilvitnunum. Eðli málsins samkvæmt eru heimildaritgerðir venjulega að verulegu leyti samansettar úr óbeinum tilvitnunum, þ.e. endursögn upp úr heimildum. Þarf ritgerðarsmiður þá að setja tilvísun á eftir hverri málsgrein? Svarið er vitanlega nei, en hann þarf samt að vísa til heimilda öðru hvoru, t.d. þegar mikilvægar upplýsingar koma fram eða e.t.v. á eftir efnisgreinum. Þetta er eitt af því sem fólk þarf að læra smám saman.

Ekki hægt að gefa einfalda reglur um það hvenær þarf að hafa tilvísanir á eftir óbeinum tilvitnunum en segja má að þumalfingursregla sé að þegar upplýsingar eru mjög mikilvægar, einhver atriði geta orkað tvímælis eða eru umdeild, þá sé vissara að benda á heimildirnar.

Heimildaskrá

Venja er að hafa skrá um allar heimildir sem notaðar hafa verið, eða vísað hefur verið til, í lok ritsmíðar. Þar þurfa að koma fram mikilvægustu upplýsingar svo sem heiti höfundar og rits, útgáfustaður og útgáfuár. Reglur geta þó verið dálítið mismunandi um það í hvaða röð upplýsingarnar koma fram, innan einstakra fræðigreina geta ríkt mismunandi hefðir. Þá er misjafnt hvort tilgreint er útgáfuforlag. Prentsmiðju er ekki getið, né prentunarstaðar þó hann sé annar en útgáfustaður.

Raða skal heimildum í stafrófsröð miðað við fyrsta staf í færslu. Venja er að hafa titil rits með breyttu letri, t.d. skáletraðan. Ef höfundur er óþekktur eða höfundar margir er algengt að hafa titil fremstan, annars er byrjað á nafni höfundar. Ef höfundur er erlendur er byrjað á eftirnafni hans. Athugið að ritstjóri eða sá sem sá um útgáfu verks er ekki höfundur; að Sigurður Nordal sá um útgáfu Völuspár gerir hann ekki að höfundi í heimildaskrá.

Ýmsar handbækur um frágang ritsmíða geta komið að gagni hér og ritgerðarsmiður verður að vera reiðubúinn að leita sér upplýsinga þar.

Nokkur dæmi

Höfundur óþekktur:

Laxdæla saga með formála, skýringum og skrám. 1999. Mál og menning, Reykjavík

Tímaritsgrein: (Heiti greinar innan gæsalappa, blaðsíðutal aftast.)

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir. 1999. „Heildstæð móðurmálskennsla." Skíma. Málgagn móðurmálskennara. 1. tbl.  22. árg., bls. 7–12.

Erlend bók: (Erlendir höfundar eru skráðir eftir ættarnöfnum fyrst.)

Gombrich, E. H. 1973. The Story of Art. Phaidon, London

Bók eftir tvo höfunda:

Ingibjörg Axelsdóttir og Þórunn Blöndal. 2000. Handbók um ritun og frágang 6. útg. Iðunn. Reykjavík

Vefsíður eða gagnagrunnur á netinu:

„Primary source". Wikipedia. http://en.wikipedia.org/wiki/Primary_source  (Skoðað: 23.2.2011)

Dæmi um heimildaskrá

Ásgeir S. Björnsson, Indriði Gíslason. 1982. Ritgerðabókin. Iðunn, Reykjavík.

Guðrún Eva Mínervudóttir. 2007. Meðan ég lifði datt mér aldrei í hug að prjóna." Stína: Tímarit um bókmenntir og listir, 2. árg. 2. hefti.

Höskuldur Þráinsson. 1995. Handbók um málfræði. Námsgagnastofnun, Reykjavík.

Lewis. Bernard. 2004. The Crisis of Islam: Holy War and Unholy Terror. London.

Stafsetningarorðabókin. 2006. Rit Íslenskrar málnefndar 15. Ritstjóri: Dóra Hafsteinsdóttir. JPV, Reykjavík.

Þorsteinn Helgason. „Hvaða heimildir eru til um Tyrkjaránið?“. Vísindavefurinn 28.3.2006. http://visindavefur.is/?id=5738. (Skoðað 23.2.2011). 

Please publish modules in offcanvas position.