Reglur um tölvunotkun nemenda við Fjölbrautaskóla Vesturlands

1. Nemendum ber að ganga vel um tölvur skólans. Þeir skulu skilja eftir hreint borð fyrir næsta notanda. Óheimilt er að neyta matar og drykkjar í tölvustofum.

2. Vinnufriður á að vera í tölvustofum og nemendum ber að sýna skólafélögum sínum tillitssemi. Þeir sem nota tölvurnar til að skemmta sér eiga að víkja úr sæti fyrir þeim sem ætla að nota þær við nám.

3. Handhafi notendanafns í tölvukerfi skólans er ábyrgur fyrir allri notkun þess. Óheimilt er að lána öðrum notandanafn eða nota annarra notendanafn til að tengjast tölvukerfinu. Nemendur skulu „logga sig út“ þegar þeir yfirgefa tölvu.

4. Óheimilt er að setja upp hugbúnað á tölvur skólans eða breyta uppsetningu þess hugbúnaðar/vélbúnaðar sem fyrir er. Einnig er óleyfilegt er að geyma tónlist, kvikmyndir, tölvuleiki eða önnur forrit á heimasvæði nema sérstakt leyfi komi til.

5. Óheimilt er að nota tölvukerfi skólans til að skoða/sækja/senda og/eða prenta út klám- eða ofbeldisefni.

6. Gert er ráð fyrir að hver nemandi hafi til umráða heimasvæði að hámarki 10 Mb nema sérstakt leyfi komi til.

7. Skólinn áskilur sér rétt til að fara yfir, skoða og eyða gögnum á gagnasvæðum nemenda til að tryggja að reglum um notkun búnaðarins sé fylgt. Óleyfilegu efni og skrám sem smitaðar eru af tölvuveirum getur skólinn eytt án þess að um frekari viðvörun sé að ræða.

8. Í lok hvers skólaárs er öllum notendanöfnum og gögnum nemenda eytt úr tölvukerfinu. Nemendum er bent á að nota geislaskrifara á bókasafni til að skrifa gögn sem þeir vilja eiga.

9. Skólinn býður upp á vef- og póstþjónustu. Aðra þjónustu af Internetinu verður að semja um sérstaklega.

10. Noti nemandi tölvukerfi skólans þannig að brjóti gegn landslögum má hann búast við að aðgangi hans verði lokað tafarlaust. Sé brotið alvarlegt getur það varðað brottvísun úr skóla. Sem dæmi um ólöglega tölvunotkun má nefna: Tilraunir til skemmdarverka eða innbrota í tölvukerfi skólans eða annarra stofnana; Notkun tölvupósts, spjallrása eða annarrar samskiptatækni til að ógna fólki eða bera út róg og ærumeiðandi ummæli.

Brot á þessum reglum geta leitt til lokunar á aðgangi að tölvum skólans og sé um alvarlegt eða endurtekið brot að ræða er málinu vísað til skólameistara og skólaráðs. 

 

Please publish modules in offcanvas position.