Samningur um Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi

 afrit af skjali með undirskriftum

 

Samningur um Fjölbrautaskóla Vesturlands

1. gr.
Sveitarfélög þau sem eru aðilar að samningi þessum, standa í sameiningu, ásamt mennta- og menningarmálaráðuneytinu, að uppbyggingu Fjölbrautaskóla Vesturlands.
Nemendur úr þessum sveitarfélögum skulu eiga forgang að heimavist, verknámsdeildum og öðrum þeim þáttum í starfsemi skólans sem aðgangur er takmarkaður að, svo fremi þeir uppfylli inntökuskilyrði er gilda á hverjum tíma og fari eftir skólareglum.

2. gr.
Hlutverk Fjölbrautaskóla Vesturlands er að bjóða upp á fjölbreytt nám á framhaldsskólastigi, bæði bóklegt og verklegt, efla samstarf í menntamálum á Vesturlandi og jafna þannig aðstöðu íbúanna til framhaldsnáms.
Fjölbrautaskóli Vesturlands er aðili að Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi og vinnur með henni að fullorðinsfræðslu, námskeiðshaldi og eftirmenntun.
Nánar er kveðið á um hlutverk og rekstur Fjölbrautaskóla Vesturlands í samningi milli skólans og menntamálaráðuneytisins.

3. gr.
Fjölbrautaskólinn skipuleggur daglegan skólakstur á milli Borgarness og Akraness. Nemendur sem nýta sér skólaaksturinn greiða fyrir hann með akstursstyrk sem þeir fá frá námsstyrkjanefnd og með viðbótargjaldi. Fjölbrautaskólinn leggur fram til skólaakstursins þá fjárhæð sem skólinn fær frá námsstyrkjanefnd til þessa verkefnis.

4. gr.
Fulltrúaráð skal vera skólanefnd til ráðuneytis um þjónustu skólans á Vesturlandi og vera tengiliður á milli skólanefndar og sveitarfélaga sem eiga aðild að skólanum.
Fulltrúaráð Fjölbrautaskólans skal skipað 12 fulltrúum og 12 til vara. Kjörtímabil fulltrúa sveitarfélaga í fulltrúaráði er fjögur ár og fylgir kjörtímabili sveitarstjórna. Skipting fulltrúa eftir sveitarfélögum er sem hér segir:

Akranes 5 fulltrúar og 5 til vara
Borgarbyggð 2 fulltrúar og 2 til vara
Dalabyggð 1 fulltrúi og 1 til vara
Eyja- og Miklaholtshreppur 1 fulltrúi og 1 til vara
Hvalfjarðarsveit 2 fulltrúar og 2 til vara
Skorradalshreppur 1 fulltrúi og 1 til vara

Gerist sveitarfélög utan Vesturlands aðilar að skólanum, skal fulltrúaráð ákveða hvernig þau öðlast aðild að ráðinu.
Auk fulltrúa sitja fundi fulltrúaráðs með málfrelsi og tillögurétti aðrir skólanefndarfulltrúar en þeir sem sæti eiga í fulltrúaráðinu, skólameistari, aðstoðarskólameistari og tveir fulltrúar kennara. Ef kennsla fer fram víðar en á Akranesi, skal annar fulltrúi kennara starfa við einhvern samstarfsskólanna en hinn við skólann á Akranesi.

5. gr.
Á fyrsta fundi nýkjörins fulltrúaráðs kýs það formann og ritara úr sínum hópi og varaformann og vararitara. Formaður boðar til funda og stýrir þeim, ritari heldur gjörðabók. Fundargerðir fulltrúaráðs skal senda menntamálaráðuneytinu, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og sveitarstjórnum. Til aukafundar í fulltrúaráði skal boða þegar skólameistari eða 1/3 fulltrúa óskar þess. Fundi fulltrúaráðs skal boða með dagskrá og teljast þeir þá löglega boðaðir. Halda skal minnst 2 fundi á hverju ári, einn á hvorri önn.
Verði ágreiningur um afgreiðslu mála í fulltrúaráði skal viðhafa hlutfallslega atkvæðagreiðslu miðað við hlutdeild sveitarfélaga í stofn- og rekstrarkostnaði, enda komi fram ósk a.m.k. eins nefndarmanns um slíka atkvæðagreiðslu. Vægi atkvæða fulltrúa í fulltrúaráði skal þá vera í sama hlutfalli og hlutdeild þess eða þeirra sveitarfélaga, sem þeir eru fulltrúar fyrir í stofn- og rekstrarkostnaði skv. 8. gr. þessa samnings. Þarf þá 2/3 hluta atkvæða til að mál teljist samþykkt.

6. gr.
Í skólanefnd sitja fimm fulltrúar skv. lögum um framhaldsskóla. Þá tvo fulltrúa sem hlutaðeigandi sveitarfélög skulu tilnefna samkvæmt lögunum kýs fulltrúaráð úr sínum hópi.

7. gr.
Sveitarfélögin greiða aðeins þann rekstrarkostnað sem fellur til vegna sérstakra verkefna sem fulltrúaráð hefur áður lagt til og sveitarstjórnir samþykkt.

8. gr.
Kostnaður vegna framkvæmda skiptist milli ríkis og sveitarfélaga í þeim hlutföllum sem lög um framhaldsskóla og sérstakir framkvæmdasamningar kveða á um. Þeim hluta stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar, sbr. 7. gr., sem til fellur skv. samningi þessum og eigi greiðist úr ríkissjóði eða af öðrum tekjum, skipta sveitarfélögin er að samningnum standa með sér í hlutfalli við íbúafjölda skv. eftirfarandi reglum. Miða skal við íbúatölu sveitarfélaga 1. desember árið áður.

Stuðull vegna skiptingar kostnaðar er fundinn á eftirfarandi hátt:

Íbúafjöldi Akraness skal margfaldaður með tölunni 1,00
Íbúafjöldi Hvalfjarðarsveitar skal margfaldaður með tölunni 0,46
Íbúafjöldi annarra sveitarfélaga skal margfaldaður með tölunni 0,32

9. gr.
Greiðslur sveitarfélaganna á kostnaðarhlut sínum skulu inntar af hendi samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna og skólans þar um.
Segi sveitarfélag upp aðild sinni að samningnum verður framlag þess vegna framkvæmda ekki endurgreitt nema eignir skólans, sem sveitarfélag hefur veitt framlag til, verði seldar eða teknar til annarra nota en reksturs framhaldsskóla, eða ef ríkið leysir til sín eignarhluta sveitarfélaganna sem að samningi þessum standa. Við endurgreiðslu skal tekið mið af heildarverðmæti viðkomandi eignar og framreiknuðu framlagi sveitarfélags.

10. gr.
Samningur þessi er háður þeim breytingum sem kunna að verða á lagaákvæðum um framhaldsnám. Endurskoða skal samninginn innan fimm ára frá gildistöku hans og hafi skólanefnd forgöngu um það verk.
Hægt er að segja samningnum upp um hver áramót með 7 mánaða fyrirvara, þannig að slit viðkomandi sveitarfélags á samningum taki gildi 1. ágúst.

Samningur þessi tekur gildi í dag og tekur þá við af fyrri samningi um Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Samningur þessi er undirritaður með fyrirvara um samþykki allra bæjar- og sveitarstjórna sem að samningnum koma.

 

 

Akranesi, 23. maí 2011

F.h. sveitarfélaga,

 

_____________________________________
Akraneskaupstaður

_____________________________________
Borgarbyggð

_____________________________________
Hvalfjarðarsveit

______________________________________
Dalabyggð

_____________________________________
Eyja- og Miklaholtshreppur

______________________________________
Skorradalshreppur


___________________________________
staðfesting menntamálaráðherra
 

Please publish modules in offcanvas position.