Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi var settur í fyrsta sinn haustið 1977. Nemendur við skólann hafa undanfarin ár verið 500 til 600 talsins, þar af um helmingur á stúdentsbrautum, um fjórðungur á iðnbrautum og um fjórðungur á öðrum námsbrautum. 

FVA býður upp á nám til stúdentsprófs á þremur brautum auk afreksíþróttasviðs. Einnig er boðið upp á fjölbreytt nám til starfsréttinda, m.a í húsasmíði, húsgagnasmíði, rafvirkjun, grunndeild rafeindavirkjunar, vélvirkjun, grunndeild bíliðngreina og á sjúkraliðabraut. Hægt er að stunda nám til stúdentsprófs samhliða öllu starfsréttindanámi. Þeim sem ekki uppfylla inntökuskilyrði í stúdentsnám eða starfsréttindanám býðst undirbúningsnám á brautabrú.

FVA kemur til móts við ólíka getu, þarfir og áhuga nemenda. Skólinn byggir á hefð sem leggur áherslu á að allir séu velkomnir, fái viðfangsefni við hæfi, vinni vel og nái góðum árangri. Skólinn býr nemendur undir nám við allar deildir háskóla. Nemendum FVA hefur vegnað mjög vel í áframhaldandi námi á háskólastigi.

Í nokkrum greinum er nemendum skipt í hópa eftir árangri á grunnskólaprófum og þeim sem á þurfa að halda býðst fornám og stuðningur á brautabrú. Með því að bjóða misþunga áfanga og mismikinn námshraða kemur skólinn bæði til móts við þá sem hafa vilja og getu til að ljúka miklu námi á skömmum tíma og þá sem hafa meira gagn af hægari yfirferð.

Vel yfir 3000 nemendur hafa útskrifast frá skólanum síðan hann tók til starfa. Fjöldi þeirra á velgengni að fagna um allt samfélagið. Ef þú vilt vita hvernig er að vera nemandi við Fjölbrautaskóla Vesturlands skaltu spyrja þá sem stundað hafa nám við skólann.

Fjölbrautaskóli Vesturlands býður nemendum góða aðstöðu til náms og félagsstarfa.

  • Vingjarnlegt viðmót, persónuleg samskipti.
  • Öflug náms- og starfsráðgjöf.
  • Hver nemandi hittir umsjónarkennara sinn vikulega.
  • Gott bókasafn og góð vinnuaðstaða.
  • Afreksíþróttasvið fyrir nemendur sem vilja stunda íþrótt sína samhliða námi við skólann.
  • Greiður aðgangur að tölvum og þráðlaust net fyrir fartölvur um allan skólann.
  • Hægt er að samþætta nám í skólanum íþróttaæfingum og námi í tónlistarskóla.
  • Mötuneyti er öllum opið og heimavist rúmar 60 nemendur.

Við skólann er starfrækt öflugt nemendafélag, NFFA. Vel er tekið á móti nýjum nemendum, m.a. með nýnemadegi og kynningarviku. Klúbbastarf er fjölbreytt, t.d. íþróttaklúbbur, leiklistaklúbbur, ljósmyndaklúbbur, góðgerðaklúbbur og kvikmyndaklúbbur. Hápunktur félagslífsins er árshátíð og frumsýning leikrits á vorönn. Forvarnarstarf er vaxandi þáttur í starfi FVA og vill skólinn með starfinu stuðla að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri sjálfsmynd nemenda. Áhersla er lögð á öflugt vímuefnalaust félagslíf sem er mikilvægur þáttur í forvörnum.

Fjölbrautaskóli Vesturlands – Skemmtilegur skóli

Please publish modules in offcanvas position.