Sumarið 1977 var gerður samningur milli Akraneskaupstaðar og menntamálaráðuneytis um stofnun framhaldsskóla á Akranesi. Skólinn hlaut nafnið Fjölbrautaskólinn á Akranesi. Var skólinn settur í fyrsta sinn 12. september 1977. Allt nám í skólanum var frá fyrsta degi skipulagt í áfangakerfi. Stofnun Fjölbrautaskólans á Akranesi markaði tímamót í skólamálum á Vesturlandi. Mestu hefur skólinn breytt aðstöðu Akurnesinga til framhaldsnáms en einnig annarra Vestlendinga. Hinn nýi skóli tók við húsnæði og hlutverki Gagnfræðaskólans og Iðnskólans á Akranesi.

Fyrsta vetur Fjölbrautaskólans á Akranesi voru um 180 nemendur í framhaldsnámi. Á árunum 1977-1987 luku 740 nemendur burtfararprófi frá skólanum á yfir 30 námsbrautum. Á 20 ára afmæli skólans árið 1997 voru brautskráðir nemendur orðnir yfir 1800.

Þann 6. febrúar 1987 var Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi stofnaður formlega og settur í fyrsta sinn þann sama dag. Þá tók gildi samningur 32 sveitarfélaga á Vesturlandi um rekstur sameiginlegs framhaldsskóla í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Samningurinn frá 1987 hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina m.a. vegna breytinga á lögum um framhaldsskóla og fækkunar sveitarfélaga vegna sameiningar þeirra úr 32 í 17. Síðan hafa sveitarfélög á Snæfellsnesi stofnað sinn eigin skóla og hinum enn fækkað vegna sameiningar svo þegar samningurinn var endurnýjaður í maí 2011 voru sex sveitarfélög eftir. Þau eru: Akranes, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur.

Fjöldi nemenda skólans hefur verið nokkuð breytilegur frá önn til annar en var mestur rúmlega 700 í kringum aldamótin 2000. Árið 2020 eru ársnemendur um 440 talsins og fer fjölgandi.

FVA er öflugur bók- og verknámsskóli þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Boðið er upp á nám í málmiðngreinum, húsasmíði, rafvirkjun og á sjúkraliðabraut ásamt hefðbundnu bóknámi til stúdentsprófs. Þá er í boði að stunda nám á öflugri starfsbraut við skólann. Auk náms í dagskóla er boðið upp á dreif- og helgarnám í verklegum greinum og haustið 2020 er lista- og nýsköpunarsvið valkostur í fyrsta sinn fyrir nemendur á Vesturlandi.

Sérstaða skólans felst í sterkum tengslum við atvinnulíf á svæðinu, persónulegri þjónustu, notalegu andrúmslofti og fjölbreyttu námsframboði.

 

Please publish modules in offcanvas position.