Sumarið 1977 var gerður samningur milli Akraneskaupstaðar og Menntamálaráðuneytisins um stofnun framhaldsskóla á Akranesi. Skólinn hlaut nafnið Fjölbrautaskólinn á Akranesi. Nýr skólameistari, Ólafur Ásgeirsson, núverandi þjóðskjalavörður, var ráðinn og setti hann skólann í fyrsta sinn 12. september 1977. Allt nám í skólanum var frá fyrsta degi skipulagt í áfangakerfi og haustið 1978 kom út fyrsta útgáfa Námsvísis Fjölbrautaskóla í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Var þar kominn grunnur að löngu og miklu samstarfi áfangaskóla á landinu. Stofnun Fjölbrautaskólans á Akranesi markaði tímamót í skólamálum á Vesturlandi. Mestu hefur skólinn breytt aðstöðu Akurnesinga til framhaldsnáms en einnig annarra Vestlendinga. Hinn nýi skóli tók við húsnæði og hlutverki Gagnfræðaskólans og Iðnskólans á Akranesi.

Fyrsta vetur Fjölbrautaskólans á Akranesi voru þar um 180 nemendur í framhaldsnámi og jafnframt því annaðist skólinn kennslu í 7., 8. og 9. bekkjum grunnskóla. Níundi bekkur dvaldi lengst grunnskóladeildanna í Fjölbrautaskólanum eða til vorsins 1986. Tvo síðustu vetur 9. bekkjar í Fjölbrautaskólanum var gerð tilraun með samþættingu náms á grunn- og framhaldsskólastigi. Var tilraunin gerð í samvinnu við Menntamálaráðuneytið. Fengu nemendur að sleppa samræmdum prófum en gátu hafið framhaldsnám í tilteknum námsgreinum um áramót. U.þ.b. þriðjungur nemenda lauk einhverjum áföngum framhaldsskólans.

Á árunum 1977-1987 luku 740 nemendur burtfararprófum frá skólanum á yfir 30 námsbrautum. Á 20 ára afmæli skólans árið 1997 voru brautskráðir nemendur hins vegar orðnir yfir 1800.

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi var stofnaður formlega 6. febrúar 1987 og settur í fyrsta sinn þann sama dag. Þá tók gildi samningur 32 sveitarfélaga á Vesturlandi um rekstur sameiginlegs framhaldsskóla í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Áður en skólinn var stofnaður hafði verið víðtækt samstarf milli Fjölbrautaskólans á Akranesi, framhaldsdeilda grunnskóla á Vesturlandi og Héraðsskólans í Reykholti. Það samstarf hafði að leiðarljósi að samræma kennslu og námskröfur á milli skólanna. Samningurinn frá 1987 hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina m.a. vegna breytinga á lögum um framhaldsskóla. Hann var endurnýjaður í janúar 1992 og síðan endurskoðaður á ný 1997 og undirritaður eftir þá endurskoðun í maí 1998. Sveitarfélögunum er standa að skólanum hafði þá fækkað vegna sameiningar úr 32 í 17. Síðan hafa sveitarfélög á Snæfellsnesi gengið úr samstarfinu og hinum enn fækkað vegna sameingar svo þegar samningurinn var endurnýjaður í maí 2011 skrifuðu fulltrúar sex sveitarfélaga. Þau voru: Akranes, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Hvalfjarðarsveit.

Árið 1995 fól menntamálaráðherra FVA að annast skólahald í Reykholti. Þar var mótað eins vetrar nám með áherslu á almennan undirbúning, námsráðgjöf og stuðning við nemendur í námsvanda. Tilraunin stóð í 2 ár en lauk formlega vorið 1997.

Eitt helsta sérkenni skólans er að kennsla á hans vegum fer fram á þeim stöðum á Vesturlandi þar sem nemendafjöldi og aðrar aðstæður leyfa. Reglulegt skólahald í nafni FVA hefur verið á Akranesi, í Borgarnesi, að Laugum í Dalasýslu, í Snæfellsbæ og Stykkishólmi. Að auki hefur fjölbreytt námskeiðahald og nám í kvöldskóla verið í boði víðar.

Farskóli Vesturlandssem var deild í FVA tók til starfa 1990. Á vegum Farskólans voru haldin námskeið og boðið upp á heildstætt nám á ýmsum sviðum, þó einkum vél- og skipstjórnarfræðsla fyrir starfandi sjómenn. Flestir voru nemendur Farskólans liðlega 700 skólaárið 1997-1998. Í dag er Farskólinn hluti af Símenntunarmiðstöð Vesturlands sem FVA stofnaði árið 1999 ásamt Bændaskólanum á Hvanneyri, Samvinnuháskólanum á Bifröst, Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, fyrirtækjum og samtökum launafólks á Vesturlandi.

Fjöldi nemenda skólans hefur verið nokkuð breytilegur frá önn til annar. Nemendur í skólanum á Akranesi hafa verið liðlega 600 að meðaltali undanfarin ár og nemendur á kennslustöðum utan Akraness 40 - 50. Nemendur á haustönnum eru gjarnan 10% fleiri en vorönnina á eftir. Nemendur í skólanum árið 1977 voru 180 talsins, þeir voru orðnir um 500 árið 1987 og hafa verið rúmlega 600 undanfarin ár. Þeim hefur því fjölgað verulega frá stofnun skólans þó svo að íbúum á Vesturlandi hafi fækkað í heildina. Í Áætlun um starf og uppbyggingu FVA frá árinu 1994, sem nær til ársins 2007, er því spáð nemendur á Akranesi verði flestir á haustönn 1998 miðað við að ekki verði fjölgun íbúa á Vesturlandi. Spáin hefur gengið eftir með mjög litlum frávikum. Tilkoma Hvalfjarðarganga mun hins vegar stækka aðdráttarsvæði skólans þegar meiri byggð verður komin á Kjalarnes en þangað er nú um 15 mínútna akstur frá Akranesi. Þá er líklegt að göngin og atvinnuuppbygging við Hvalfjörð muni þegar til lengri tíma er litið valda fjölgun íbúa á sunnanverðu Vesturlandi.
 

Please publish modules in offcanvas position.