Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands, 14. útgáfa 2014
Starfshættir | Námsbrautir


  Fjölbrautaskóli Vesturlands

Fjölbrautaskólinn á Akranesi tók til starfa 12. september 1977. Stofnun skólans markaði tímamót í skólamálum á Vesturlandi. Hinn nýi skóli tók við húsnæði og hlutverki Gagnfræðaskólans og Iðnskólans á Akranesi. Fljótlega eftir stofnun skólans hófst samstarf um rekstur framhaldsdeilda milli hans og grunnskóla á Vesturlandi. Einnig tók Héraðsskólinn í Reykholti þátt í þessu samstarfi.
    Árið 1987 var sú breyting gerð að úr Fjölbrautaskólanum á Akranesi og framhaldsdeildum grunnskólanna var stofnaður nýr skóli, Fjölbrautaskóli Vesturlands. Þann 6. febrúar 1987 gerðu 32 sveitarfélög á Vesturlandi og menntamálaráðuneytið samning um að reka öflugan framhaldsskóla og bæta þannig aðstöðu Vestlendinga til að afla sér menntunar.
    Síðan sveitarfélög í fjórðungnum undirrituðu fyrst samning um Fjölbrautaskóla Vesturlands hafa nokkur þeirra sameinast og sveitarfélög á norðanverðu Snæfellsnesi hafið samstarf um rekstur framhaldsskóla í Grundarfirði. Nú eru sveitarfélögin sem eiga aðild að samningi um Fjölbrautaskóla Vesturlands því aðeins sex talsins:

 • Akraneskaupstaður
 • Borgarbyggð
 • Hvalfjarðarsveit
 • Dalabyggð
 • Eyja- og Miklaholtshreppur
 • Skorradalshreppur
   

Hlutverk framhaldsskóla

Hlutverk framhaldsskóla er skilgreint í Lögum um framhaldsskóla, nr. 92 frá 2008. Þar segir í 2. grein:

Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.

Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frum¬kvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.

Af þessu má sjá að hlutverk skóla eins og Fjölbrautaskóla Vesturlands er mjög margþætt. Skólinn á ekki eingöngu að sjá um kennslu heldur líka félagsmótun og uppeldi í víðasta skilningi.

 

Markmið Fjölbrautaskóla Vesturlands

Markmið Fjölbrautaskóla Vesturlands eru að:

 1. Koma til móts við þarfir allra íbúa svæðisins fyrir menntun á framhaldsskólastigi með því að bjóða fjölbreytt nám á mörgum brautum, sem hæfir nemendum með misjafna getu, margvísleg áhugamál og ólíkar þarfir. Skólinn er fyrir alla sem vilja stunda nám á framhaldsskólastigi og eru tilbúnir til að leggja sig fram.
 2. Hver nemandi finni að velferð hans skipti máli, kennurum og stjórnendum skólans þyki mikilvægt að hann nýti og þroski hæfileika sína, vinni vel og nái góðum árangri.
 3. Í hverjum áfanga sem kenndur er við skólann séu nemendum veittar skýrar upplýsingar um markmið, áherslur og kröfur í náminu.
 4. Kennarar hvetji nemendur til að leggja sig fram og velji viðfangsefni og kennsluaðferðir sem stuðla að því að þeir nái skilgreindum markmiðum.
 5. Kennarar nýti og þroski hæfileika sína, frumkvæði þeirra njóti sín og þeir taki þátt í þróunarstarfi.
 6. Skólareglur, sem nemendum er gert að hlýða, stuðli að árangursríku námi, gagnkvæmri virðingu nemenda, kennara og annars starfsfólks og hvetji til góðrar umgengni, tillitssemi og umburðarlyndis.

 

Heilbrigði og velferð

Stefnumótun þessi byggist á ákvæðum aðalnámskrár framhaldsskóla frá 2011 um heilbrigði og velferð sem grunnþátt í menntun þar sem heilbrigði er tengt andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð.
   Við stuðlum að heilbrigði og velferð. Þetta gerum við með því að:

 • Sýna hvert öðru virðingu og hlúa að sjálfsvirðingu hvers og eins.
 • Láta hvern einstakling finna að velferð hans skipti máli og það sé mikilvægt að hann vinni vel og nái góðum árangri.
 • Hæfileikar nemenda njóti sín og þeim sé hrósað fyrir það sem þeir gera vel.
 • Skólareglur stuðli að tillitssemi, umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu nemenda og starfsfólks.
 • Gefa öllum nemendum kost á ráðgjöf bæði um nám og mál sem varða einkahagi, heilbrigði og líðan.
 • Hvetja til hófsemi og heilbrigðra lífshátta.
 • Styðja uppbyggilegt félagslíf.
 • Halda uppi skipulegu forvarnastarfi.
 • Vinna gegn einelti og annarri hegðun sem veldur vanlíðan eða heilsutjóni.

Við eflum skilning á heilbrigði og velferð. Þetta gerum við með því að:

 • Bjóða upp á úrval áfanga þar sem heilbrigðismál eru meginefni.
 • Flétta fræðslu um heilbrigði saman við kennslu ólíkra námsgreina.
 • Vekja bæði nemendur og starfsfólk til umhugsunar um heilbrigðismál og kynna forvarnastarf skólans fyrir þeim.

Skólinn tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli í samstarfi við Landlæknisembættið.
   Til að fylgja stefnunni eftir er mat á framkvæmd hennar hluti af kerfisbundnu innra mati skólans, þar á meðal mati á kennslu í áföngum.

 

Jafnrétti

Stefnumótun þessi byggist á ákvæðum aðalnámskrár framhaldsskóla frá 2011 um jafnrétti sem grunnþátt í menntun. Hún tekur einnig mið af lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og mannréttindum eins og þau eru skilgreind í lögum og alþjóðasáttmálum sem Ísland á aðild að.
   Við vinnum í anda jafnréttis. Þetta gerum við með því að:

 • Sýna öllum nemendum virðingu.
 • Láta hvern nemanda finna að velferð hans skipti máli og kennurum og stjórnendum skólans þyki mikilvægt að hann nýti og þroski hæfileika sína, vinni vel og nái góðum árangri.
 • Gæta þess að allir eigi þess kost að nýta hæfileika sína óháð kyni og án hamlandi áhrifa hefðbundinna kynjaímynda.
 • Koma í veg fyrir ranglæti og mismunun þar á meðal einelti, kynferðislega áreitni og annað ofbeldi.
 • Láta skólareglur stuðla að tillitssemi, umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu nemenda og starfsfólks.
 • Bjóða nám á mörgum brautum, sem hæfir nemendum með misjafna getu, margvísleg áhugamál og ólíkar þarfir.
 • Nota fjölbreytilegar kennsluaðferðir til að mæta þörfum ólíkra nemenda.

Við stuðlum að skilningi á jafnrétti og gildi þess. Þetta gerum við með því að:

 • Hvetja kennara til að flétta fræðslu um jafnréttismál saman við kennslu ólíkra námsgreina.
 • Bjóða upp á áfanga þar sem jafnréttismál eru meginefni.
 • Vekja bæði nemendur og starfsfólk til umhugsunar um jafnréttismál og kynna jafnréttisstefnu skólans fyrir þeim.

Til að fylgja stefnunni eftir er mat á framkvæmd hennar hluti af kerfisbundnu innra mati skólans, þar á meðal mati á kennslu í áföngum.

 

Öryggismál

Skólinn leggur sig fram um að tryggja öryggi nemenda sinna og leggur áherslu á að þeir fylgi öryggisreglum. Í áföngum sem kenndir eru á verkstæðum eða annars staðar þar sem slysahætta er fá nemendur skriflegar reglur sem þeim er skylt að fylgja. Þeir kvitta fyrir að þeim sé kunnugt um reglurnar og ef þeir eru yngri en 18 ára fá forráðmenn sent afrit af reglunum með staðfestingu nemanda á að hann viti hverjar þær eru. Brot á öryggisreglum geta varðað brottvísun úr áfanga.
   Verði slys í kennslustund skal kennari skrá hvað gerðist. Skráningin skal borinn undir þann sem fyrir slysinu varð. Sé ágreiningur um málsatvik skal skrá hvað menn eru ósammála um, annars staðfesta bæði kennari og sá sem varð fyrir slysi að atvikalýsing sé rétt.

 

Áföll og áfallateymi

 1. Skólameistari skipar fólk í áfallateymi og skulu nöfn þess, netföng og símanúmer vera á vef skólans. Í áfallateymi eru:
Aðalmenn  Varamenn
Skólameistari Aðstoðarskólameistari
Námsráðgjafi  Námsráðgjafi
Starfsmaður skrifstofu Starfsmaður skrifstofu
Vistarstjóri Starfsmaður með þekkingu/reynslu
Starfsmaður með þekkingu/reynslu Starfsmaður með þekkingu/reynslu

Á fundi skal boða bæði aðalmenn og varamenn.

 1. Áfallateymi getur beðið aðra að koma á fund um áfall, svo sem formann nemendafélags, sérfróða aðila, sóknarprest, fulltrúa lögreglu og heilsugæslu.
 2. Áfallateymi hittist alltaf í upphafi skólaárs (á öðrum starfsdegi kennara fyrir byrjun skóla).
 3. Áfallateymi fundar strax ef áföll verða. Áföll eru t.d. dauðsfall starfsmanns eða nemenda, alvarleg slys sem starfsmenn eða nemendur lenda í, sviplegir atburðir sem valda veru¬legum ótta í skólanum, váleg eða slæm tíðindi sem hafa mikil áhrif á fólk í skólanum.
 4. Á fyrsta fundi eftir áfall eru teknar ákvarðanir um fyrstu viðbrögð og um næsta fund.
 5. Ef áfall er alvarlegt fundar áfallateymi líka eftir að skipulegum aðgerðum er lokið.
 6. Þeir sem sitja fund áfallateymis eru bundnir þagnarskyldu um það sem gerist á fundinum og skal hefja hvern fund á að minna á það.

 

Sjálfsmat

Allir þættir skólastarfsins eru metnir með skipulegum hætti og niðurstöður mats og skýrslur um vinnu við það eru birtar á vef skólans. Matið er unnið með hliðsjón af markmiðum skólans eins og þau eru skilgreind í lögum og skólanámskrá. Við það er miðað að hver þáttur skólastarfsins sé metinn a.m.k. einu sinni á hverju þriggja ára tímabili..
   Í tengslum við sjálfsmat leggur skólinn spurningalista fyrir nemendur og starfsmenn. Ber öllum hlutaðeigandi að svara þeim eftir bestu vitund.

   

Please publish modules in offcanvas position.