Forráðamenn

Við Fjölbrautaskóla Vesturlands starfar foreldraráð. Formlegt samstarf skólans við forráðamenn sem hóp er í samráði við stjórn foreldraráðs.

Í upphafi hvers skólaárs fræðir skólinn forráðamenn nýnema um starfshætti sína.

Forráðamenn geta fengið viðtalstíma hjá náms- og starfsráðgjöfum og stjórnendum ef þeir vilja ræða skólagöngu barna sinna.

Einnig hefur skólinn samráð við forráðamenn einstakra nemenda undir 18 ára aldri, upplýsir þá um skólasókn barna sinna og afskipti sem skólastjórnendur hafa af þeim t.d. vegna brota á skólareglum.

 Aðrir skólar

Fjölbrautaskóli Vesturlands hefur samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Suðurnesja m.a. um námskrá og þróun námsgreina. Stjórnendur þessara þriggja skóla funda saman nokkrum sinnum á hverju skólaári. Sameiginlegir kennarafundir eru haldnir við og við.

Skólinn á aðild að Fjarmenntaskólanum sem er samstarf um fjarkennslu milli nokkurra framhaldsskóla. Nánari upplýsingar eru á vefnum www.fjarmenntaskolinn.is.


Samstarf við nærumhverfi, fyrirtæki og stofnanir

Símenntunarmiðstöðin

Fjölbrautaskóli Vesturlands var einn af 34 stofnaðilum að Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi þegar hún varð til í febrúar 1999. Alla tíð síðan hefur skólinn átt fulltrúa í stjórn Símenntunarmiðstöðvarinnar og haft við hana margháttað samstarf.

Sveitarfélög á Vesturlandi

Sumarið 1977 var gerður samningur milli Akraneskaupstaðar og menntamálaráðuneytisins um stofnun framhaldsskóla á Akranesi. Skólinn hlaut nafnið Fjölbrautaskólinn á Akranesi. Tíu árum síðar breyttist skólinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands með samningi 32 sveitarfélaga á Vesturlandi um rekstur sameiginlegs framhaldsskóla í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Síðan þá hafa nokkur sveitarfélög á Snæfellsnesi sagt sig frá samkomulaginu og öðrum fækkað vegna sameiningar og nú eiga sex sveitarfélög formlega aðild að samningi um Fjölbrautaskóla Vesturlands. Þau eru: Akranes, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Hvalfjarðarsveit. Samráðsvettvangur skólans og sveitarfélaganna sex kallast Fulltrúaráð.

Fyrirtæki

Auk samstarfs við sveitarfélög á skólinn samvinnu við fjölda fyrirtækja einkum í greinum sem tengjast starfsnámsbrautum skólans.

 

Please publish modules in offcanvas position.