Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands, 14. útgáfa 2014
Starfshættir | Námsbrautir


Saga

SAG 103  Fornöld, miðaldir og nýöld fram til 1800
Undanfari: Einkunn 5,0 í samfélagsgreinum á grunnskólaprófi og a.m.k. 5,0 á samræmdu prófi | samfélagsfræði 193 | ÍSL103 | ÍSL202
  Fjallað er um einstök atriði sem mest í tímaröð og dregin fram ákveðin málefni sem skoðuð verða sérstaklega. Fyrst og fremst verður horft til Evrópusögunnar þó vísað verði til annarra heimsálfa þar sem tækifæri gefast.
   Í fornaldarsögunni verður litið til upphafs fastrar búsetu mannsins, árdalamenning og ríkjamyndun skoðuð, svo og upphaf ritlistar, lagasetningar, tímatals og eingyðistrúar. Verður leitast við að skoða hvernig forn menning birtist í nútímanum.
   Miðaldasagan greinir frá upphafi samfélaga Mið- og Norður-Evrópu; menningu þeirra, útbreiðslu kristni, efnahagsþróun, vaxandi þéttbýli og víkingaöld. Íslandssagan verður skoðuð sérstaklega og myndun hins nýja samfélags í útjaðri Norður-Evrópu.
   Ný heimsmynd birtist í lok miðalda: endurreisn, landafundir og siðaskipti. Skoðuð verður þróun í náttúruvísindum, listum og tækni. Horft verður til breytinganna á Íslandi á einveldisöld. Einnig verður fjallað um samskipti Evrópumanna við aðra heimshluta.

SAG 203  Saga 19. og 20. aldar
Undanfari: SAG 103
  Hér verður fylgt ferli tæknibreytinga og samfélags. Hversdagslíf og hugmyndastefnur á 19. öld verða tekin fyrir og sýnt hvernig sjálfstæðisbarátta Íslendinga tengist hræringum úti í Evrópu. Jafnframt verður horft á tækninýjungar og reynt að rýna í það hvort þær hafa auðgað og bætt mannlífið og samskipti manns og náttúru hvort heldur sem er í Evrópu eða í öðrum heimsálfum. Þá verða skoðuð þau samfélagsumbrot sem hefjast með fyrri heimstyrjöldinni, rússneska byltingin, fasisminn, kreppan, síðari heimsstyrjöldin og kalda stríðið, og athugað hvernig þau birtast á Íslandi. Skoðuð verður nýlendustefna iðnríkjanna og áhrif hennar á þjóðir heims í menningarlegu og stjórnarfarslegu tilliti.

SAG 303  Menningarsaga
Undanfari: SAG 203
  Hér verður fengist við valda þætti úr menningarsögu á sviði myndlistar, byggingarlistar, bókmennta eða heimspeki og tengsl hugmyndaheims og samfélags. Ætlunin er að nemendur kynnist frumtextum og listaverkum eða tónlist eftir því sem við verður komið. Lögð verður áhersla á verkefnavinnu og samanburð þátta úr menningu ólíkra samfélaga. M.a. er leitast við að huga að tengslum íslenskrar menningar við umheiminn á ýmsum tímum.

SAG 313  Nútímasaga
Undafari: SAG 203
  Fjallað verður um helstu þætti í sögu stórviðburða 20. aldar frá og með fyrri heimsstyrjöld. Verða eftirstríðsárin könnuð sérstaklega og fjallað um síðari hluta aldarinnar með sérstöku tilliti til stöðu Íslands. Lagt verður mat á stöðu alþjóðasamstarfs í aldarlokin. Áhersla verður lögð á sjálfstæða verkefnavinnu nemenda.

SAG 403  Íslandssaga 19. og 20. aldar
Undanfari: SAG 203
  Fjallað verður um valda þætti í Íslandssögu 19. og 20. aldar sem tengjast samfélagsbreytingum, stjórnmálum, efnahagsmálum, sögu svæða eða atburða eða öðru sem lítt eða ekki er tekið fyrir í SAG203, SAG303 eða SAG313. Áhersla verður lögð á sjálfstæða verkefnavinnu nemenda. Áfanginn hentar vel fyrir fjölbreytilega verkefnavinnu eins og t.d. ritgerðasmíð, hópverkefni af ýmsu tagi, fyrirlestra nemenda, vefsíðugerð, myndbandagerð eða viðtöl við eldra fólk um líf þess og starf í íslensku samfélagi.

SAG 413 Íslandssaga til 1800
Undafari: SAG 203
  Fjallað verður um íslenska miðaldasögu og þróun íslensks samfélags fram á 19. öld. Kannaðir verða valdir þættir og munu nemendur fá viðfangsefni til sjálfstæðra athugana undir leiðsögn kennara. M.a. verður lögð áhersla á könnun frumheimilda og fjölbreytta úrvinnslu upplýsinga. Æskilegt er að hverju sinni sé áhersla lögð á ákveðið svið eða tímabil, t.d. móðuharðindin, Sturlungaöld, einokunarverslunina eða á afmarkaða þætti í sögu landsins eins og verslun, sjávarútveg, landbúnað, húsagerð o.s.frv.
 
 
 
 
 
 

Please publish modules in offcanvas position.