Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands, 14. útgáfa 2014
Starfshættir | Námsbrautir


Líffræði

LÍF 103  Lífeðlisfræði
Undanfarar: NÁT103 og NÁT123
  Í áfanganum er farið í líkamsstarfsemi dýra, plantna og annarra lífvera. Fjallað er um fæðunám, meltingu, öndun, efnaflutning, úrgangslosun, ónæmissvörun, boðaflutning, hreyfingu, æxlun, fósturþroskun, stjórn efnaskipta og samvægi. Hvert einstakt líffærakerfi er tekið fyrir og hliðstæð kerfi borin saman. Fjallað er um heilbrigða starfsemi en einnig algengustu frávik. Verklegar æfingar eru þáttur í náminu.

LÍF 113  Vistfræði
Undanfarar: NÁT103 og NÁT123
  Áfanginn á að veita nemendum greinargóða yfirsýn yfir vistfræðina sem fræðigrein, aðferðafræði hennar og viðfangsefni. Lögð er áhersla á sérstöðu Íslands, helstu gerðir vistkerfa sem hér finnast í sjó jafnt sem á landi og vistfræðilegar rannsóknir hér á landi. Í áfanganum er fjallað um uppbyggingu, orkuflæði og efnahringrásir vistkerfa og teknar fyrir kenningar sem lúta að stöðugleika eða kviku jafnvægi vistkerfa. Fjallað er um líffræðilegan fjölbreytileika og breytingar á tegundasamsetningu líffélaga, bæði af náttúrulegum orsökum og af völdum manna. Stofnhugtakið er tekið fyrir og skoðaðar helstu mælingaaðferðir og rannsóknir á stofnum. Fjallað er um sjálfbæra nýtingu lífrænna auðlinda og helstu nytjastofna hér við land. Rætt er um aðlögun og hæfni lífvera og áhrif vistfræðilegra þátta á þróun þeirra og atferli. Verklegar æfingar og vettvangsferð(ir) eru þáttur í náminu.

LÍF 203  Erfðafræði
Undanfari: LÍF103
  Í áfanganum er fjallað um sögu erfðafræðinnar og stöðu hennar innan náttúruvísinda. Fjallað er um lykilatriði erfðafræðinnar, frumuskiptingu, litninga og gen, myndun kynfrumna og frjóvgun. Einnig um erfðamynstur lífvera og hvað ræður kynferði þeirra. Skoðað er hvernig litningar stjórna myndun próteina í lífverum og atburðarás prótínmyndunar rakin. Breytingum á erfðaefni, stökkbreytingum og litningabreytingum er lýst ásamt sérkennum í erfðum örvera og fjallað um helstu aðferðir sem beitt er í erfðarannsóknum og erfðatækni. Fjallað er um tíðni og jafnvægi gena í ólíkum stofnum lífvera. Verklegar æfingar og vettvangsferð(ir) eru þáttur í náminu.

LÍF 223  Íslensk dýr
Undanfarar: LÍF103/LÍF113
  Markmið áfangans er að kynna nemendum fjölbreytileika dýraríkisins með höfuðáherslu á hryggdýr, þ.e. fiska, fugla og spendýr sem lifa á og við Ísland. Líkamsgerð og lífshættir skoðaðir svo og saga þeirra og vistfræðileg staða í íslenskum vistkerfum. Verklegar æfingar og vettvangsferð(ir) eru þáttur í náminu svo og verkefnavinna tengd upplýsingaöflun og framsetningu niðurstaðna.

LÍF 233  Íslenskar plöntur
Undanfarar: LÍF103/LÍF113
  Markmið áfangans er að kynna nemendum fjölbreytileika plönturíkisins með höfuðáherslu á íslenskar plöntur í sjó, vatni og á þurrlendi. Líkamsgerð og lífshættir skoðaðir svo og saga þeirra og staða í íslenskum vistkerfum. Verklegar æfingar og vettvangsferð(ir) eru þáttur í náminu svo og verkefnavinna tengd upplýsingaöflun og framsetningu niðurstaðna.

LÍF 273  Mannalíffræði
Undanfari: LÍF 103
  Í þessum áfanga er fjallað um lífshlaup manna frá getnaði til dauða. Fjallað er um getnaðinn, fósturþroskun, fæðingu, æsku og unglingsár með tilliti til vaxtar og kynþroskabreytinga, helstu sjúkdóma og heilbrigðisvandamál, öldrun og að lokum dauða einstaklingsins. Verkefnavinna tengd upplýsingaöflun og framsetning niðurstaðna er mikilvægur þáttur námsins.

LÍF 283  Örverufræði
Undanfari: LÍF 103
  Áfanginn á að veita nemendum greinargott yfirlit yfir örverufræðina. Fjallað er um flokkun örvera, byggingu þeirra og starfsemi. Lögð er áhersla á að kynna helstu ræktunar- og greiningaraðferðir sem notaðar eru við örverurannsóknir. Fjallað um mikilvægi örvera í náttúrunni, notagildi þeirra í iðnaði, skaðsemi þeirra s.s. skemmdir á matvælum og sjúkdóma sem þær valda. Einnig er fjallað um varnir gegn örverum, sótthreinsun, dauðhreinsun, sýklalyf og mótefni. Verklegar æfingar og verkefnavinna eru mikilvægur þáttur í náminu.

LÍF 303  Verkefnalíffræði
Undanfari: A.m.k. 6 einingar í líffræði þar af 3 einingar í LÍF 113 eða 203
  Í þessum áfanga samþætta nemendur þekkingu úr fyrri líffræðiáföngum og öðrum námsgreinum við fjölþættar verkefnalausnir („problem-based-learning“). Nemendur vinna sjálfstætt og í hópum við lausn verkefna og þjálfast við að koma niðurstöðum, túlkunum og hugmyndum á framfæri á sem fjölbreyttastan hátt. Nemendur nota ýmiss konar búnað og nýta upplýsinga- og samskiptatækni við verkefni sín. Gert er ráð fyrir samstarfi við stofnanir og skóla, jafnt innanlands sem utan.

LÍF 363  Sjálfstæð rannsóknaverkefni
Undanfari: A.m.k. 6 einingar í líffræði, þar af 3 einingar í LÍF113 eða 203
  Nemandi getur sótt um að vinna að ritgerð/rannsókn í líffræðigrein og fá fyrir 3 námseiningar, standist verkefnið kröfur þær sem skólinn skilgreinir sérstaklega. Áfanginn gerir kröfur um sjálfsæð vinnubrögð og faglega ögun og er mjög góður undirbúningur undir háskólanám í lífvísindum hvers konar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Please publish modules in offcanvas position.