Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands, 14. útgáfa 2014
Starfshættir | Námsbrautir


Jarðfræði

JAR 103  Almenn jarðfræði – landmótun
Undanfarar: NÁT 113 og 123
  Í áfanganum er lögð áhersla á meginatriði jarðfræði Íslands, tengsl uppruna landsins við landrek og landmótun af völdum innrænna og útrænna afla. Farið er í undirstöðuatriði steinda- og bergfræði og einnig kenningar um uppruna kviku og myndun mismunandi kvikugerða undir Íslandi. Verklegar æfingar og vettvangsferð(ir) eru hluti af náminu.

JAR 113  Almenn stjörnufræði
Í áfanganum er saga stjörnufræðinnar stuttlega rakin, fjallað um stjörnufræðina sem fræðigrein og farið er í kenningar um gerð, uppruna og þróun alheimsins. Þá er sérstök áhersla lögð á sólkerfið, bæði innri og ytri reikistjörnurnar, loftsteina og halastjörnur og aðferðir til rannsókna á þeim. Fjallað er um kenningar um uppruna efnisins, þróun fastastjarna og gerð og myndun svarthola. Þá er fjallað um rannsóknaráætlanir og nýjustu uppgötvanir og möguleika á sviði geimferða og rannsókna. Verklegar æfingar eru hluti af náminu.
 
JAR 203  Jarðsagan og landrekið
Undanfari: JAR 103
  Í áfanganum er fjallað um landrek ákveðinna svæða, einstaka tíma í sögu jarðar, tilurð Íslands, m.a. út frá flekakenningunni, og þær breytingar sem orðið hafa á eldvirkni, lífríki og loftslagi í landinu. Kynntar eru kenningar um uppruna jarðar og aldursákvarðanir og lögð áhersla á að nemendur þekki nútímaaðferðir sem beitt er við rannsóknir á jarðsögunni. Fjallað er um þróun lífríkis, almennt og meðal einstakra hópa, þar á meðal mannsins. Kynntar eru kenningar um útdauða lífvera og einstök dæmi tekin m.a. í tengslum við umfjöllun um loftslagsbreytingar, ísaldir og orsakir þeirra. Fjallað er um þróun rekbelta, uppruna kviku og heita reiti. Vettvangsferðir eru hluti af náminu.

JAR 213  Veður- og haffræði
Undanfari: JAR 103
  Í áfanganum er fjallað um þá grundvallarþætti sem stýra hreyfingum og efnasamsetningu lofts og sjávar. Tekið er fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland, sjógerðir og áhrif sjávar á vöxt og viðgang nytjastofna við landið. Þá er lögð áhersla á greiningu helstu gróðursvæða hér á landi og skilning á því hvaða veðurfarsþættir stýra útbreiðslu þeirra. Gert er ráð fyrir vettvangsferðum og talsverðri verkefnavinnu nemenda í áfanganum, s.s. mælingum á veðri og almennum veðurathugunum, greiningu skýjagerða og mati á veðrabreytingum. Verklegar æfingar eru hluti af náminu
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Please publish modules in offcanvas position.