Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands, 14. útgáfa 2014
Starfshættir | Námsbrautir


Íslenska

ÍSL 1S2, 2S2, 3S2, 4S2   Íslenska á starfsbraut
Fjórir áfangar með sömu lýsingu.
  Í áfanganum er lögð áhersla á að nemandinn treysti kunnáttu sína í þeim tjáskiptaleiðum sem henta honum. Nemendur auki orðaforða sinn og málskilning og treysti kunnáttu sína á öllum sviðum lestrar, lesi fjölbreytta texta, s.s. bókmenntatexta á auðlesnu máli og ýmsa texta sem birtast í dagblöðum, tímaritum, og á netinu. Nemendur fái þjálfun í ritun og tjáningu. Nemendur læri að meta góða málnotkun og öðlast trú á eigin málhæfni í ræðu og riti.

ÍSL 193  Hagnýt málnotkun I
Lestur fjölbreyttra texta, réttritun og málnotkunaræfingar. Lögð verður áhersla á hagnýt viðfangsefni varðandi málfar og lesskilning. Skrifleg og munnleg tjáning. Ein íslensk kvikmynd verður skoðuð og fjallað um hana.

ÍSL 293  Hagnýt málnotkun II
Orðflokkagreining verður rifjuð upp og hugað að beygingu fallorða. Réttritun verður æfð og kynnt notkun hjálpargagna á borð við leiðréttingarforrit og orðabækur. Fengist verður við ritæfingar ýmiss konar. Lesnir verða ýmsir bókmenntatextar.

ÍSL 102  Læsi og ritun
Undanfari: Einkunn 5,0 – 6,9 á grunnskólaprófi og a.m.k. 4,0 á samræmdu prófi | ÍSL193 og ÍSL293
  Nemendur æfist á öllum sviðum lestrar með því að lesa texta af margvíslegu tagi og fái innsýn í nokkur grundvallarhugtök bókmenntafræðinnar. Nemendur fái einnig þjálfun í fjölbreyttri ritun og skrifi stuttar ritgerðir. Leitast skal við að tengja umfjöllun um bókmenntir þjálfun í ritun og málnotkun. Í því skyni skulu nemendur lesa kjörbók og vinna ritgerðarverkefni tengt henni. Æfa skal nemendur í stafsetningu og greinarmerkjasetningu. Lögð skal áhersla á að þeir temji sér notkun hjálpargagna við réttritun, þar með talið orðabækur og leiðréttingarforrit.

ÍSL 103  Bókmenntir, ritun, málfræði
Undanfari: Einkunn 7,0 – 10 á grunnskólaprófi og a.m.k. 6,0 á samræmdu prófi
  Nemendur lesi fjölbreytta texta og þjálfist nokkuð í meðferð hugtaka bókmenntafræðinnar. Þeir lesi eina fornsögu og styttri texta, þ.á m. smásögur og ljóð, auk kjörbókar. Nemendur vinni málfræðiverkefni í tengslum við texta, m.a. á sviði setningafræði og þjálfist í greinarmerkjasetningu. Nemendur læri að nýta sér málfræðilegar upplýsingar í orða- og uppflettiritum. Æfa skal stafsetningu eftir því sem þörf krefur og leggja áhersla á að nemendur temji sér notkun hjálpargagna við ritun, svo sem orðabækur og leiðréttingarforrit. Nemendur þjálfist í ritun og skrifi m.a. ritgerð í tengslum við efni áfangans. Nemendur skulu fá tækifæri til að kynnast efni á sviði lista og margmiðlunar sem hæfir áfanganum.

ÍSL 202  Bókmenntir og málfræði
Undanfari: ÍSL 102
  Ritun er þjálfuð með ýmsum hjálparforritum. Nemendur æfist í bókmenntalestri og bókmenntagreiningu. Þeir lesi eina fornsögu eða skáldsögu frá síðari tímum. Nemendur vinni málfræðiverkefni í tengslum við texta og einnig verði setningafræðileg hugtök kynnt og skoðuð.

ÍSL 203  Mál- og menningarsaga
Undanfari: ÍSL 103
  Nemendur fái innsýn í sögu íslensks máls og menningar frá frumnorrænum tíma til vorra daga. Í tengslum við það er fjallað um hljóðkerfi nútímaíslensku og helstu framburðarmállýskur á Íslandi kynntar. Þá er fjallað um íslenska málstefnu. Einnig lesa nemendur frásagnir Snorra-Eddu um norræna goðafræði og hugmyndaheim norrænna manna til forna. Kenndar eru helstu aðferðir við notkun heimilda í ritun og skrifuð ritgerð. Ein kjörbók er lesin.
 
ÍSL 212  Mál- og menningarsaga
Undanfari: ÍSL 202
  Fjallað er um sögu íslensks máls og menningar frá frumnorrænum tíma til vorra daga. Í tengslum við það er fjallað um hljóðkerfi nútímaíslensku og nemendur læra að lesa úr hljóðritunartáknum. Einnig kynnast nemendur helstu framburðarmállýskum á Íslandi. Þá er fjallað um norræna goðafræði og hugmyndaheim norrænna manna til forna. Kenndar eru helstu aðferðir við notkun heimilda í ritun og skrifuð ritgerð. Ein kjörbók er lesin.
 
ÍSL 303  Bókmenntir og tunga frá landnámi til siðaskipta
Undanfari: ÍSL 203 / ÍSL 212
  Í áfanganum er lögð áhersla á íslenskar bókmenntir og sögu þeirra frá landnámsöld til siðaskipta. Nemendur átti sig á skiptingu bókmenntasögunnar eftir bókmenntagreinum og tímabilum. Nokkur verk verða lesin vandlega, þ.á m. ein löng Íslendingasaga. Hugað er að málfari og stíl fornra bókmennta. Nemendur geti tjáð sig í ræðu og riti um bókmenntaverkin og þjálfist í meðferð heimilda af ýmsum toga. Í þessu sambandi verður einkum lögð áhersla á notkun upplýsingatækni til að afla þekkingar og miðla þekkingu.

ÍSL 403  Bókmenntir og tunga frá siðaskiptum til 1900
Undanfari: ÍSL 303
  Fjallað er um íslenskt mál og bókmenntir á tímabilinu frá 1550 og fram yfir aldamótin 1900. Kennd er bókmenntasaga lærdómsaldar, upplýsingaraldar og tíma rómantíkur og raunsæis. Einnig eru lesnir bókmenntatextar frá tímabilinu og kynnt helstu skáld. Lögð er áhersla á tengsl máls, bókmennta og þjóðfélags. Kynntar eru hugmyndir manna um íslenska tungu og viðleitni þeirra til málhreinsunar. Einnig er fjallað um bragfræði og stílfræði í tengslum við bókmenntalesturinn.

ÍSL 483  Valáfangi
Undanfari: ÍSL 303
  Innihald áfangans er breytilegt og er auglýst sérstaklega í hvert sinn sem hann er í boði.

ÍSL 503  Bókmenntir frá 1900
Undanfari: ÍSL 403
  Í áfanganum er fjallað um íslenska bókmenntasögu 20. aldar og tengsl hennar við sögu og menningu þess tímabils. Lesin verða verk eftir nokkra af helstu höfundum aldarinnar og farið á leiksýningu. Fjallað verður um stílfræði og bragfræði í tengslum við bókmenntalestur. Nemendur vinna ýmiss konar verkefni, flytja m.a. stuttan fyrirlestur í kennslustund og skrifa bókmenntaritgerð.

ÍSL 583  Valáfangi
Undanfari: ÍSL 303
  Innihald áfangans er breytilegt og er auglýst sérstaklega í hvert sinn sem hann er í boði.

ÍSL 603  Íslensk og almenn málvísindi
Undanfari: 15 eininga kjarni í íslensku
  Í áfanganum er fjallað um hljóðfræði og setningafræði. Farið er yfir megineinkenni íslenska hljóðkerfisins og íslenskrar setningagerðar þannig að nemendum nýtist sú þekking við samanburð íslensku og erlendra mála sem þeir hafa lært. Loks er fjallað um ýmis atriði íslenskrar málsögu.

ÍSL 683  Valáfangi
Undanfari: ÍSL 303
  Innihald áfangans er breytilegt og er auglýst sérstaklega í hvert sinn sem hann er í boði.

ÍSL 633  Mál og menningarheimur barna og unglinga
Undanfari: ÍSL 212 / ÍSL 203
  Áfanginn fjallar um málþroska barna, bókmenntir fyrir börn og menningarheim barna. Sögu og þróun íslenskra barna- og unglingabókmennta eru gerð skil, frá þjóðsögum og ævintýrum til afþreyingarefnis nútímans. Þá eru kannaðar nokkrar fræðikenningar um þessi svið, einkum um hinn uppeldislega þátt, auk þess sem nemendur gera grein fyrir sjálfstæðum athugunum sínum.
 
 
 
 
 
 
 
 

Please publish modules in offcanvas position.