Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands, 14. útgáfa 2014
Starfshættir | Námsbrautir


Efnafræði

EFN 103  Atómið og mólhugtakið
Undanfari: NÁT 123
  Í áfanganum er fjallað um atómið í framhaldi af NÁT 123. Áhersla er lögð á notkun lotukerfisins til að finna öreindafjölda atóma, rafeindaskipan og til að spá fyrir um gerðir efnatengja milli efnapara. Lagður er grunnur að skilningi á mólhugtakinu og notkun þess í tengslum við efnajöfnur. Lögð skal megináhersla á að tengja námsefnið reynsluheimi nemendanna. Verklegar æfingar eru hluti af náminu.

EFN 203  Gaslögmálið og efnahvörf
Undanfari: EFN 103
  Í áfanganum er fjallað um samband hita, þrýstings og rúmmáls fyrir gastegundir. Þá er fjallað um helstu gerðir efnahvarfa og farið dýpra í magnbundna útreikninga en gert var í EFN 103. Einnig er fjallað um ýmsa þætti tengda efnahvörfum svo sem varmabreytingar og hraða efnahvarfa. Lagður verður grunnur að skilningi nemenda á jafnvægishugtakinu og því síðan fylgt eftir með umfjöllun um leysni salta. Verklegar æfingar eru hluti af náminu.

EFN 303  Rafefnafræði, sýrur og basar
Undanfari: EFN 203
  Í áfanganum er fjallað um oxunar- og afoxunarhvörf og farið inn á svið rafefnafræðinnar. Þá er fjallað nokkuð ítarlega um sýrur og basa og helstu þætti sýru- og basahvarfa. Skoðað er hvernig eiginleikar efna og efnaflokka eru háðir staðsetningu þeirra í lotukerfinu og í framhaldi af því fylgir dýpri umfjöllun um valin frumefni úr hópi málma og málmleysingja þar sem krafist er rannsóknar- og verkefnavinnu nemenda. Verklegar æfingar eru hluti af náminu.

EFN 313  Lífræn efnafræði og lífefnafræði
Undanfari: EFN 203
  Áfanginn er skilgreindur sem undirbúningur undir frekara nám í lífrænni efnafræði og lífefnafræði, s.s. nám í heilbrigðisgreinum, og til að gefa nokkra yfirsýn yfir efnið fyrir þá sem ekki hyggja á framhaldsnám tengt þessum greinum. Í áfanganum eru sérkenni lífrænna efna skoðuð, fjallað er um helstu flokka þeirra og gefin innsýn í nafnakerfi og helstu efnahvörf. Komið er inn á lífefnafræði með því að skoða þrjá meginflokka lífefna, sykrur, prótein og fituefni. Verklegar æfingar eru hluti af náminu.

EFN 413  Lífefnafræði
Undanfarar: EFN 313 og LÍF 203
  Markmið áfangans er að nemendur öðlist góðan skilning á þeirri efnastarfsemi sem á sér stað í lífverum. Fjallað er um gerð og hlutverk lífrænna efna í lífverum. M. a. er fjallað um sykrur, lípíð, amínósýrur og prótín, nýmyndunar- og sundrunarferli þessara efna svo og hlutverk kjarnasýra, ensíma og kóensíma. Jafnframt er vikið að nokkrum hagnýtum þáttum lífefnafræðinnar. Verklegar æfingar eru hluti af náminu.
 
 
 
 
 

Please publish modules in offcanvas position.