Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands, 14. útgáfa 2014
Starfshættir | Námsbrautir


Viðbótarnám til stúdentsprófs eftir starfs- eða listnám

Nemendur sem ljúka skilgreindu starfsnámi á framhaldsskólastigi eiga kost á viðbótarnámi til undirbúnings námi á háskólastigi. Slíku námi lýkur með stúdentsprófi.
    Stúdentsprófið eitt og sér tryggir ekki aðgang að öllu námi á háskólastigi hvorki hér á landi né í öðrum löndum. Einstakir háskólar eða háskóladeildir setja ýmsar sérkröfur sem nemendur þurfa einnig að uppfylla og í sumum tilvikum þurfa nemendur að gangast undir inntökupróf. Það er því mikilvægt að nemendur sem stefna að inngöngu í tiltekinn skóla á háskólastigi afli sér upplýsinga um þær kröfur sem viðkomandi skóli gerir um undirbúning.
 

Tæknistúdentspróf fyrir nemendur sem hafa lokið þriggja til fjögurra ára starfsnámi

Tæknistúdentspróf jafngildir námi á frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík og veitir nemendum rétt til að hefja nám í tækni- og verkfræðigreinum við háskóla.

Til að ljúka stúdentsprófi af tæknibraut þurfa nemendur að ljúka iðnnámi (eða 3ja ára starfsnámi) og eftirtöldum áföngum (sem sumir eru e.t.v. hluti af starfsnáminu):

Bókfærsla        BÓK  103                        3 einingar
Danska           DAN  103, 203                   6 einingar
Eðlisfræði       EÐL  103, 203, 303              9 einingar
Efnafræði        EFN  103, 203, 303              9 einingar
Enska            ENS  103, 203, 303, 403        12 einingar
Íslenska         ÍSL  103, 203, 303, 403, 503   15 einingar
Náttúruvísindi   NÁT  123                        3 einingar
Stærðfræði       STÆ  103, 203, 303, 403,
                      503, 523, 603, 703        24 einingar
Tölvufræði       TÖL  103                        3 einingar
Upplýsingatækni  UTN  103                        3 einingar

Viðbótarnám til stúdentsprófs (VSS) fyrir nemendur sem hafa lokið þriggja til fjögurra ára starfsnámi

Nemendur skulu hafa lokið starfsnámi að fullu, bæði námi í skóla og áskilinni starfsþjálfun á vinnustað. Þess er þó ekki krafist að nemendur í löggiltum iðngreinum hafi lokið sveinsprófi. Viðbótarnámið geta nemendur:

 1. Skipulagt sjálfir miðað við skilgreind markmið um áframhaldandi nám á háskólastigi, eða

 2. Lokið námi í eftirtöldum greinum þannig að heildarnám þeirra verði eins og tilgreint er hér að neðan. (Dæmi: Nemandi hefur lokið 6 einingum í íslensku sem hluta af starfsnáminu. Hann skal þá bæta við sig 9 einingum í íslensku.)

  Íslenska 15 einingar
  Enska 12 einingar
  Stærðfræði 6 einingar

  Til viðbótar við þetta skulu nemendur ljúka 12 einingum í einum eftirtalinna greinaflokka:

  tungumálum;
  raungreinum og stærðfræði;
  samfélagsgreinum.

  Þetta 12 eininga nám skal skipulagt þannig að heildarnám í grein verði ekki minna en 9 einingar samtals. Stærðfræði er þó undanskilin frá 9 eininga reglunni. (Dæmi: Nemandi hefur lokið 12 einingum í ensku og 3 einingum í dönsku sem hluta af starfsnámi. Hann getur bætt við sig 6 einingum í ensku og 6 einingum í dönsku. Hins vegar gengur ekki að bæta við 9 einingum í ensku og 3 í dönsku því þá verður heildarnám í dönsku aðeins 6 einingar. Það gengur heldur ekki að bæta við 6 einingum í dönsku og 6 í stærðfræði því danska og stærðfræði tilheyra ekki sama greinaflokki.)

Nemendum er bent á að þótt þeir ljúki námi samkvæmt því sem segir í b-lið er mikilvægt að þeir kynni sér sérkröfur þess háskóla sem þeir óska að stunda nám við og skipuleggi viðbótarnámið í samræmi við þær.
    Listi yfir námsbrautir sem teljast vera þriggja til fjögurra ára starfsnám.
 

Viðbótarnám til stúdentsprófs (VSS) fyrir nemendur sem lokið hafa tveggja til þriggja ára starfsnámi

Nemendur skulu hafa lokið starfsnámi að fullu, bæði námi í skóla og áskilinni starfsþjálfun á vinnustað. Þess er þó ekki krafist að nemendur í löggiltum iðngreinum hafi lokið sveinsprófi. Til viðbótar við starfsnámið skulu nemendur ljúka námi í eftirtöldum greinum þannig að heildarnám þeirra verði eins og tilgreint er hér að neðan. (Dæmi: Nemandi hefur lokið 4 einingum í íslensku sem hluta af starfsnáminu. Hann skal þá bæta við sig 11 einingum í íslensku.)

Íslenska 15 ein.
Enska 15 ein.
Stærðfræði 6 ein.
Raungreinar 9 ein.
Saga 6 ein.
Íþróttir  8 ein.

Til viðbótar við þetta skulu nemendur ljúka

 1. 12 einingum í þriðja tungumáli eða 12 einingum í stærðfræði.

 2. 15 einingum í samfélagsgreinum eða 15 einingum í náttúrufræðigreinum eða 15 einingum í íþróttagreinum.

Þetta 27 eininga nám skal skipulagt þannig að heildarnám í grein verði ekki minna en 9 einingar samtals. Stærðfræði og saga eru þó undanskildar frá 9 eininga reglunni. (Dæmi: Nemandi hefur lokið 3 einingum í félagsfræði sem hluta af starfsnámi. Hann getur lokið b-lið með 6 einingum í félagsfræði og 9 einingum í sálfræði og verið þannig kominn með 9 einingar í hvoru fagi.)
    Nemendum er bent á að þótt þeir ljúki námi samkvæmt því sem segir í b-lið er mikilvægt að þeir kynni sér sérkröfur þess háskóla sem þeir óska að stunda nám við og skipuleggi viðbótarnámið í samræmi við þær.
    Listi yfir námsbrautir sem teljast vera tveggja til þriggja ára starfsnám.
 

Nám til stúdentsprófs fyrir nemendur sem lokið hafa starfsnámi sem er styttra en 2 ár

Ef nemandi sem lokið hefur starfsnámi sem er styttra en 2 ár innritast á bóknámsbraut til stúdentsprófs getur hann fengið sérnám metið til allt að 12 eininga á kjörsviði viðkomandi bóknámsbrautar.
    Sérgreinar á starfstengdum námsbrautum eru metnar sem hluti af frjálsu vali á bóknámsbrautum til stúdentsprófs.
 
 

Please publish modules in offcanvas position.