Könnun á hug nemenda til þjónustu á heimavist, skrifstofu, bóksafni, mötuneyti og við tölvukerfi

Könnun á hug nemenda til þjónustu á heimavist, skrifstofu, bóksafni, mötuneyti og við tölvukerfi var lögð fyrir í gegnum skólakerfið Plútó í apríl 2014. Nemendum var skipt af handahófi í fjóra jafnstóra hópa og einn hópur beðinn að svara spurningum um skrifstofu, annar um bókasafn, þriðji um tölvukerfi og sá fjórði um mötuneyti. Spurningum um heimavist svöruðu íbúar vistarinnar.
 
Þessar kannanir voru lagðar fyrir með sama hætti á vorönn 2011, 2008, 2006 og 2004. Þegar sambærilegar kannanir voru lagðar fyrir á vorönn 2004 og á vorönn 2006 voru einnig lagðir spurningalistar fyrir kennara. 
 
Spurningum um tölvukerfi svöruðu 98 nemendur. Fram kom að notkun á tölvum í skólanum hefur minnkað örlítið frá fyrri árum. Notkun á Plútó hefur þó farið vaxandi og þorri nemenda notar hann. Fleiri nemendum finnst þeir hafa næga kunnáttu í upplýsingatækni nú (eða 92%) en 2011 (þegar þetta hlutfall var 75%). Almenn ánægja er með þjónustu kerfisstjóra.
 
Spurningum um bókasafn svöruðu 95 nemendur. Fram kom að nemendur eru almennt ánægðir með þjónustu bókasafnsins, eins og þeir voru líka þegar svipaðar kannanir voru gerðar árin 2006, 2008 og 2011. Svör nemenda benda til að notkun safnsins hafi þó minnkað nokkuð. Einnig kom fram að heimavinna nemenda hefur aukist lítillega.
 
Spurningum um þjónustu skrifstofu og stjórnenda svöruðu 87 nemendur. Á skrifstofu var aðeins einn starfsmaður í vetur en voru áður tveir. Könnunin leiddi í ljós að þörf er að hafa tvo starfsmenn á skrifstofu því nemendur töldu þjónustu lakari nú en áður. Að hluta til kann þetta að skýrast af breyttum reglum um skráningu á forföllum sem mörgum nemendum þóttu íþyngjandi.
 
Spurningum um þjónustu mötuneytis svöruðu 93 nemendur. Almenn ánægja er með þjónustuna en viðskiptin hafa minnkað frá 2008 og 2011 þó þau séu ekki jafn lítil og þau voru 2006.
 
Spurningum um þjónustu á heimavist svöruðu 44 nemendur. Svörin sýna almenna ánægju með þjónustuna og samfélagið á vistinni.
 
Spurningarnar og samantektir um svör nemenda eru í viðhengjum hér að neðan. Tölur um ánægju með einstaka starfsmenn eru ekki birtar.

Please publish modules in offcanvas position.