Kæru nemendur! Nú eiga allar einkunnir að vera komnar á sinn stað í Innu, prófsýning að baki og uppskera þessarar óvenjulegu vorannar komin í hús. Við minnum á að náms- og starfsráðgjafar skólans verða áfram til viðtals og eru nemendur sem þurfa að breyta vali fyrir næsta vetur eða hyggja á útskrift á næsta skólaári hvattir til að hafa samband ef þörf er á. Í vikunni eru starfsdagar hér í skólanum þar sem kennarar og annað starfsfólk undirbýr skólastarf næsta skólaárs og verður skóladagatal skólaársins 2020-2021 birt hér á vefnum í vikulok.

Nú hefur verið opnað fyrir einkunnir í Innu og þær orðnar sýnilegar á ný. Allar einkunnir verða komnar inn að morgni 22. maí. Þótt einkunn hafi verið skráð í INNU og birt nemendum áskilur skólinn sér rétt til að leiðrétta mistök við útreikning eða skráningu einkunna. Prófsýning verður nk. föstudag, 22. maí, kl. 11-11:45. Prófsýningin verður rafræn að þessu sinni og eiga nemendur að hafa samband við sína kennara og bóka tíma til að skoða prófið eða ræða námsmatið. Kennarar munu svo hafa samband á umsömdum tíma í gegnum Teams.

Við vekjum athygli á því að enn er opið fyrir innritun í nám á sjúkraliðabraut, umsóknarfrestur er til 31. maí. Námið er skipulagt sem fjarnám með staðbundnum lotum þar sem nemendur koma í skólann u.þ.b. einn dag í mánuði og hentar námið því vel með vinnu. Fyrra nám og starfsreynsla við umönnun er metin samkvæmt skólanámskrá. Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna.

Nemendur sem hafa verið í myndlistaráfanganum MYNL1GM05 þessa önnina hafa nú skilað lokaverkefnum sínum á veggi Leirbakarísins, Suðurgötu 50a. Þetta hefur hvorki verið létt né einfalt verk og nemendur hafa þurft að sýna mikinn sjálfsaga og útsjónarsemi þar sem verkefnin hafa alfarið verið unnin að heiman og kennslan farið fram í gegnum netið. Við hvetjum fólk að líta við og skoða verkin þeirra, sýningin er opin fram á sunnudag.

Please publish modules in offcanvas position.