Nýjar tilkynningar:

27.3.2020 - Við ljúkum þessari viku með hvatningarorðum frá meistara Steinunni, við klárum þetta langhlaup saman 👍 Góða helgi öll sömul, farið vel með ykkur!

27.3.2020 - Föstudagur og helgarfrí alveg að bresta á. Fínasta veður á Akranesi og sólin lætur sjá sig öðru hverju. Hvernig væri að hlæja aðeins með Ara Eldjárn í frímínútunum á eftir (í boði Iðunnar fræðsluseturs) og fara svo út í góða veðrið?

26.3.2020 - Við erum svo heppin að í skólanum starfar öflugt heilsueflingarteymi. Nemendur voru að fá sendan póst frá teyminu með splunkunýju heilsupeppi og fullt af góðum ráðum. Sjáið bara!

26.3.2020 - Heimavist - Búið er að breyta áður útsendum greiðsluseðlum vegna heimavistargjalda. Leigugjöldin voru lækkuð og greiðsluseðlarnir sem eru í heimabanka nemenda/forráðamanna eru því fyrir tímabilið 1. – 13. mars.

26.3.2020 - Mötuneyti - Búið er að senda út greiðsluseðla vegna fæðis í mötuneyti FVA fyrir tímabilið 24. febrúar til 13. mars.

26.3.2020 -  Hefurðu prófað að nota Pomodoro-aðferðina í tímastjórnun? Aðferðin gengur út á 25 mínútna vinnulotur þar sem þú lætur ekkert trufla þig. Þegar tíminn er liðinn áttu að standa upp, hvíla þig, fá þér hressingu eða gera eitthvað allt annað þangað til næsta 25 mínútna vinnulota hefst. Prófaðu!

26.3.2020, fimmtudagur - Hvernig væri að fara í góðan göngutúr í dag og jafnvel gera æfingar á leiðinni? Helena okkar Ólafsdóttir leyfði okkur að deila myndbandi þar sem hún sýnir alls konar gönguæfingar sem auðvelt er að gera úti í náttúrunni og við hvetjum ykkur til að prófa 🙂

25.3.2020, miðvikudagur - Á tíunda degi samkomubanns eru sum okkar kannski orðin óþolinmóð. En það er margt hægt að gera þótt við verðum að halda okkur heima. Það er mjög mikilvægt að halda áfram að gera eitthvað skemmtilegt, hringja í vini, hlusta á tónlist, fara út að hreyfa sig eða læra eitthvað nýtt. Við viljum hvetja ykkur til að nýta allt það sem nú er í boði í streymi: tónleika, danstíma, fjarþjálfun og fjölbreytta skemmtun og fræðslu. 

24.3.2020 - Nú er hægt að ná í Siggu námsráðgjafa í síma 4332519 (á dagvinnutíma). Hún vill endilega heyra í ykkur nemendum og hvetur ykkur til að vera ekki feimin við að hafa samband.

24.3.2020, þriðjudagur- Er ekki annars þriðjudagur? Nú fer dagaruglingur að segja til sín í fjarvinnunni... Það er sérlega sólríkur morgunn á Akranesi. Hvernig væri að fara í göngutúr í frímínútunum og njóta blíðunnar? Ekki gleyma hreyfingunni!

23.3.2020 - Skilaboð frá Þorbjörgu til þín 🙂

23.3.2020, mánudagur - Ný vika hafin. Snjórinn er að mestu farinn hér á Akranesi. Hvernig væri að byrja daginn á að kíkja á góð ráð frá Siggu og Ólöfu og leggja línurnar fyrir vikuna?

20.3.2020 - Hefurðu séð Instagram FVA í dag? Myndir frá vinnuaðstöðu kennara og góð ráð frá náms- og starfsráðgjöfum FVA. Fylgstu með!

20.3.2020 - Hér er hressandi heilsupepp frá heilsueflingarteyminu 🙂

20.3.2020 - Hér er hægt að lesa skilaboð frá Steinunni skólameistara sem hægt er að taka með sér inn í kærkomið helgarfrí.

20.3.2020, föstudagur - Dagur fimm í samkomubanni. Við erum óðum að finna okkar takt í nýja námsumhverfinu. Óneitanlega fylgir meira áreiti þegar tölvupóstar og tilkynningar berast ört en það á eftir að jafnast.

19.3.2020 - Þorbjörg dáist að ykkur öllum, þannig að það sé á hreinu! Hún vildi koma á framfæri skilaboðum, sjá hér.

19.3.2020 - Breyting hefur orðið á viðtölum hjá Írisi skólahjúkrunarfræðingi. Viðtölin fara að nýju fram á skrifstofunni hennar á Vogabrautinni, hún lætur ykkur vita hvernig þið komist inn!

19.3.2020 - Í dag voru vaktaskipti hjá þeim starfsmönnum sem mæta til vinnu á Vogabrautinni. Rauða liðið (skólameistari, fjármálastjóri og forstöðumaður bókasafns) er nú komið í heimavinnu en græna liðið (aðstoðarskólameistari, áfangastjóri og skrifstofufulltrúi) er mætt til starfa í húsnæði FVA næstu vikuna. Á þennan hátt reynum við að fyrirbyggja að starfsmenn FVA smiti hver annan eða veikist á sama tíma

19.3.2020 - Sigga og Ólöf minna á sig, náms- og starfsgjöfin er mikilvægari en nokkru sinni í samkomubanninu. Það er hægt að senda þeim póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., hringja í síma 4332500 og panta símtal frá þeim, eða senda þeim skilaboð á Teams.

19.3.2020, fimmtudagur - Fjórði dagur, bjartur og fagur. Heiðskírt og logn á Akranesi, margt verra til en að vakna í sólskini og mæta á Teams-fund.

18.3.2020 - Meistari Steinunn vildi koma á framfæri þakklæti og hvatningu til kennara, nemenda og aðstandenda í lok þriðja dags samkomubanns. Sjá skilaboðin hér. Þið eruð hetjur!

18.3.2020, miðvikudagur - Dagur 3 í samkomubanni rúllar af stað í rólegheitunum. Létt snjókoma á Akranesi en bjart yfir. Inna og Teams höguðu sér mun betur í gær en á mánudaginn, sem betur fer!

17.3.2020 - Þeir nemendur sem náðu ekki að tæma skápa eða taka eigur sínar með sér fyrir lokun skólans geta haft samband við Leó húsvörð í síma 4332517 eða 8336450, hann bjargar málunum.

17.3.2020 - Nú geta nemendur og kennarar sem þurfa að nota Snöru fengið gestalykil til að komast í orðabækurnar og uppflettiritin sem þar eru. Kennarar munu miðla upplýsingum um þetta til nemenda eftir þörfum. Skjót og góð viðbrögð hjá Snöru nú þegar allir vinna heima og ekki lengur hægt að nota innanhússaðgang skólans.

17.3.2020 - Afkastageta Innu á að vera meiri í dag en í gær og er vel fylgst með stöðu mála þar á bæ. Endilega látið vita ef Inna er ekki til friðs.

17.3.2020, þriðjudagur - Nýr dagur, bjartur og fagur (hér á Akranesi hið minnsta). Við höldum öll áfram að fóta okkur í nýju námsumhverfi og gerum okkar besta.

16.3.2020 - Náms- og starfsráðgjafar skólans hafa staðið í ströngu í dag við að svara ýmsum fyrirspurnum nemenda sem er ekki skrýtið enda mikið af nýjum fyrirmælum og upplýsingum sem nemendum hafa borist í dag. Við tökum einn dag í einu og vinnum þetta saman. Ekki hika við að hafa samband ef eitthvað er!

16.3.2020 - Björg á bókasafninu vill koma því á framfæri að þrátt fyrir að bókasafn skólans sé nú lokað er samt veitt upplýsingaþjónustu af ýmsum toga, t.d. aðstoð við heimildaleit og upplýsingaöflun. Hægt er að hafa samband á netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

16.3.2020 - Íris skólahjúkrunarfræðingur vill koma því áleiðis að viðtalstímar eru óbreyttir en viðtölin sjálf fara nú fram á heilsugæslunni en ekki í skólanum sjálfum. Sjá nánar hér. 

16.3.2020 - Skólanum hefur verið lokað og kennarar og nemendur vinna heima í dag og a.m.k. fram að páskafrí. Aðrir starfsmenn skiptast á að mæta í hús og vinna heima samkvæmt gefinni áætlun, þannig að það er ansi tómlegt í skólanum. Kennarar mega kenna í gegnum net í sínum stofum skv. stundatöflu kjósi þeir það, en koma ekki upp á kennarastofu. Allur annar aðgangur að húsnæðinu er bannaður.

16.3.2020, mánudagur - Inna hefur verið að stríða okkur í dag. Sem er afar leitt þegar reynt er að halda úti fjarkennslu með hennar hjálp. Á Innu er mikið álag en verið er að vinna í að jafna álagið svo hún geti starfað eðlilega, ekki gefast upp!

 

LEIÐBEININGAR OG GÓÐ RÁР 

Teams fundir - nemendur  
 
Góð ráð varðandi heimavinnu  

Algengar spurningar til okkar í FVA:

Hvernig fer kennsla fram í samkomubanni? Kennarar munu eftir sem áður halda sínu striki en kennslan fer fram eftir öðrum leiðum en vani er, m.a. í gegnum netið (INNU og TEAMS) og merkt er við mætingu/þátttöku í kennslustundinni. Það er í þínum höndum, ágæti nemandi, að fylgjast með öllum skilaboðum frá þínum kennurum í INNU og fréttum á vef og facebook-síðu FVA og keppast við námið eftir sem áður svo tíminn fari alls ekki til spillis.

Þarf ég að tilkynna veikindi á meðan á samkomubanni stendur? Já, veikindi og önnur forföll skal sem áður tilkynna í gegnum Innu, í síma 4332500 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. samdægurs. Nemanda ber að tilkynna forföll fyrir klukkan 10:00 hvern virkan dag sem forföll vara.

Ég þarf að komast í skólann og nálgast eigur mínar, hvað geri ég? Hringdu í Leó húsvörð í síma 4332517 og hann bjargar málunum.

Ég þarf að tala við námsráðgjafa, hvað geri ég? Námsráðgjafar starfa eftir sem áður, aðallega í gegnum net og síma. Þeir sem eiga bókaðan tíma á næstu vikum geta hringt í skólann á þeim tíma, þeir sem óska eftir viðtali geta sent tölvupóst. Ef þér líður illa eða ert t.d. kvíðin/n skaltu ekki hika við að hafa samband við námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing í síma eða með tölvupósti.

Eru nemendur með netfang hjá skólanum? Já, allir nemendur eru með netfang hjá 365, notendanafnið er það sama og notað er til innskráningar á tölvukerfi skólans: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Pósthólfið er hér: outlook.office.com. Nemendur nota flestir sitt eigið netfang og kennarar nota það netfang sem skráð er í Innu til samskipta við nemendur.

Geta aðstandendur nemenda eldri en 18 ára fengið aðgang að upplýsingum í Innu og komist á póstlista? Þegar nemendur verða 18 ára lokast á aðgang foreldra/forráðamanna þeirra að Innu og þar með fá aðstandendur ekki lengur tölvupósta frá skólanum. Nemandi yfir 18 ára getur sjálfur veitt aðstandanda aðgang að Innu, sjá leiðbeiningar hér.

Ýmsar almennar upplýsingar um COVID-19:

COVID.IS - ýmsar hagnýtar upplýsingar

Skólastarf á neyðarstigi Almannavarna - spurt og svarað

Upplýsingar um COVID-19 fyrir ungmenni

Kórónaveiran - það sem þú þarft að vita (frá Landlækni)

Lykilskilaboð og forvarnaraðgerðir vegna COVID-19 í skólumykilskilaboð og forvarnaraðgerðir vegna COVID-19 í skólum

Spurt og svarað frá Landlæknisembættinu ef nemandi eða starfsmaður þarf að fara í sóttkví:

Sp.1. - Þar sem ljóst er að náið samneyti er í fjölskyldum eiga þá fjölskyldur nema í sóttkví einnig að vera í sóttkví í þennan tilgreinda tíma?
Svar: Ef viðkomandi nemandi eða starfsmaður er ekki með einkenni en þarf að vera í sóttkví þurfa fjölskyldumeðlimir ekki að vera í sóttkví nema þeir hafi sjálfir umgengist smitaðan einstakling.
Mikilvægt er þó að huga vel að sóttvörnum á heimilinu og minnka náin samskipti eins og kostur er. Sjá leiðbeiningar fyrir einstaklinga í sóttkví.
Ef einstaklingur sem hefur verið útsettur fyrir smiti fær einkenni á meðan á sóttkví stendur er brýnt að viðkomandi hafi samband við sína heilsugæslustöð eða vaktsíma 1700 og fái ráðgjöf.

Sp.2. - Ef fjölskyldumeðlimur er kennari í öðrum framhaldsskóla eða starfar á fjölmennum vinnustað í nánu samneyti við aðra á sá hinn sami að mæta til vinnu?
Svar: Ef einhver í fjölskyldu kennara er í sóttkví, en ekki með einkenni, getur viðkomandi kennari haldið áfram sínum störfum.  Ef sá sem er í sóttkví fær einkenni fer hann í einangrun og eiga aðrir sem hafa verið á heimilinu að fara í sóttkví.

Sp.3. - Eru kvef, hósti, hálsbólga, hausverkur og slappleiki (þetta íslenska kvef) án hita og beinverkja tilefni til þess að nemi/kennari í sóttkví fari í sýnatöku fyrir COVID-19?
Svar: Já, þegar vitað er um útsetningu fyrir kórónaveirusmiti eru öll öndunarfæraeinkenni grunsamleg og kalla á sóttkví annarra á heimilinu.

Sp.4. Eiga systkini nema í sóttkví að sækja áfram sína skóla?
Svar: Á meðan sá sem er í sóttkví hefur engin einkenni er öðru heimilisfólki sem ekki hefur sjálft umgengist einstaklinga með COVID-19 sjúkdóm óhætt að sækja sinn skóla/vinnu. Mikilvægt er þó að huga að sóttvörnum, sýna varkárni og ef grunur vaknar um einkenni hjá þeim sem er í sóttkví skal leita ráðgjafar í síma 1700 eða á heilsugæslu.

 

Athugið að þessi síða er síbreytileg og var síðast uppfærð 16. mars 2020 kl. 11:40

Please publish modules in offcanvas position.