Meginmarkmið

Nemendur fái innsýn í hlutverk, verksvið og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja einkum á sviði starfsmannastjórnunar og verkstjórnar, fái skilning á sjálfum sér sem stjórnanda og búi sig markvisst undir að geta leyst af hendi stjórnunarstörf í iðnfyrirtæki á fagsviði sínu.

Námsmarkmið

Starfsmannastjórnun og verkstjórn

1.         Samskiptahæfni stjórnandans

Við lok áfangans skal nemandinn

-           vita að samskiptahæfni er lykilatriði í góðri stjórnun

-           geta skilgreint grundvallarþætti í mannlegum samskiptum, vita hvað mótar samskipti fólks og hvaða áhrif þau hafa á starfsanda á vinnustað

-           þekkja helstu þætti sem hafa áhrif á mótun og þróun sjálfsmyndar, geta beitt sjálfsskoðun og vita hvað hann getur gert til að styrkja sjálfsmynd sína og annarra

-           vera fær um að beita ýmiskonar tækni til að bæta samskipti og auka sjálfstraust

 

2.         Hlutverk og eðli starfsmannastjórnunar og verkstjórnar

Við lok áfangans skal nemandinn

-           geta skilgreint viðfangsefni stjórnunar starfsmannamála

-           geta skilgreint hlutverk og stöðu verkstjóra innan fyrirtækisins

-           þekkja kröfur til góðrar verkstjórnar

-           þekkja mismunandi stjórnunarstíla og átta sig á hvernig þeir höfða til hans sem stjórnanda og persónu

 

3.         Stjórnun starfsmannamála

Við lok áfangans skal nemandinn

-           þekkja ferli starfsmannaráðninga og geta skipulagt hvernig nýr starfsmaður er kynntur og settur inn í starf

-           geta samið starfslýsingar og verklýsingar og vita hvernig ber að leiðbeina starfsmönnum við að ná tökum á tilteknu verki

-           geta metið hæfni starfsmanna með tilliti til framleiðni og gert raunhæfar tillögur til umbóta

-           vita hvernig má hvetja og virkja einstaklinga og hópa til ábyrgðar og umbóta og stuðla jafnframt að aukinni starfsánægju og góðum starfsanda

-           þekkja grundvallaratriði er varða hópstarf og geta skipulagt og stjórnað vinnu og samskiptum í hóp, m.a. fundum

-           vita hvernig halda þarf á starfsmannamálum þegar breytingar eiga sér stað í fyrirtækinu

-           þekki fyrirbærið valdaframsal og viti hvenær og hvernig er vænlegt að standa að framsali valds og ábyrgðar.

-           geta greint vandamál sem upp koma í samskiptum á vinnustað eða á milli fyrirtækis og viðskiptaaðila og beitt viðtalstækni við lausn þeirra mála

-           þekkja ferli uppsagna og hvað hægt er að gera til að draga úr neikvæðum áhrifum á sjálfsmynd þess eða þeirra sem fyrir verða

-           viti hvernig ganga skal frá starfslokum starfsmanns

 

Stefnur og straumar í stjórnun

Við lok áfangans skal nemandinn

-           kunna skil á helstu einkennum í þróun hugmynda um stjórnun á þessari öld og geta sett einstakar stefnur eða kenningar í samhengi við eigin reynslu af stjórnendum í atvinnulífinu

-           vita hvað gæðastjórnun er og á hvaða meginþáttum hún byggist

 

Hlutverk stjórnandans í stefnumótun og áætlanagerð

Við lok áfangans skal nemandinn

-           kunna aðferðir við markmiðssetningu og framleiðnimælingar sem lið í stefnumótun fyrirtækja og geta beitt þeim aðferðum við einföld verkefni í iðngrein sinni

-           þekkja helstu tegundir áætlana sem gerðar eru í fyrirtækjum og kunna skil á einkennum þeirra

-           þekkja grundvallaratriði í gerð markaðsáætlana og vita hvaða hlutverki vöruþróun gegnir í þeirri áætlanagerð

-           geta unnið einfaldar verk- og tímaáætlanir

-           vita í hverju verkefnisstjórn er fólgin og hvaða hlutverki verkefnisstjóri gegnir

 

Vinnumarkaðs- og vinnuvistfræði

Við lok áfangans skal nemandinn

-           þekkja helstu einkenni íslensks vinnumarkaðar og kunna skil á helstu samtökum og hlutverkum þeirra

-           þekkja helstu atriði er varða réttindi og skyldur launþega og atvinnurekenda samkvæmt vinnulöggjöf og kjarasamningum

-           þekkja reglur um öryggismál og slysavarnir á vinnustað, vita um ábyrgð verkstjóra í því efni og geta skipulagt fyrirbyggjandi aðgerðir

-           geta skipulagt vinnuaðstöðu og leiðbeint starfsmönnum til að koma í veg fyrir líkamsskaða af völdum rangrar líkamsbeitingar við vinnu

-           geta veitt fyrstu hjálp samkvæmt viðurkenndum reglum Rauða kross Íslands[1]

 

 [1]    Ekki er gert ráð fyrir að fyrsta hjálp verði kennd í þessum áfanga heldur verði þess krafist að nemandinn framvísi vottorði um að hann hafi lokið viðurkenndu námskeiði í fyrstu hjálp á þremur seinustu árum fyrir útgáfu meistarabréfs.  

Please publish modules in offcanvas position.