Nemendur við FVA hafa talsvert val um námshraða en almennt er miðað við að nemendur í bóklegu námi sæki um 25 til 35 kennslustundir (55 mín. hver kennslustund) á viku auk íþrótta, þ.e. 5 til 7 áfanga sem eru kenndir í 4 kennslustundir. Á iðnbrautum eru vikulegar kennslustundir í sumum tilvikum fleiri.

Hver nemandi þarf að skipuleggja nám sitt eftir brautalýsingu og stunda skóla samkvæmt stundaskrá. Ákvæði sem hér fara á eftir telja upp nánari reglur og ýmis möguleg frávik.

Helstu námskröfur við Fjölbrautaskóla Vesturlands

  1. Miðað er við að frá og með annarri önn ljúki nemandi a.m.k. 15 einingum (9 gömlum einingum) á önn eða nái fullnægjandi námsárangri í því sem svarar 12 kennslustundum á viku. Standist nemandi ekki þessi framvinduviðmið getur hann ekki gert ráð fyrir að fá fleiri en 15 einingar (9 gamlar einingar) í stundatöflu næstu önn á eftir.
  2. Nemanda er heimilt að sitja þrívegis í sama áfanga. Falli nemandi í sama skylduáfanga í þriðja sinn þarf hann, að undangengnu samráði við náms- og starfsráðgjafa, að sækja um setu í áfanga í fjórða sinn.
  3. Miðað er við að reglulegt nám til stúdentsprófs taki ekki meira en 9 annir.
  4. Ef fall á lokaprófi í einum áfanga kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast skal honum leyft að endurtaka próf í þeim áfanga í lok sömu annar. Nemendur eiga að jafnaði ekki rétt á endurtöku í símatsáföngum. Ef nemandi hefur reynt við flest verkefni áfangans getur hann sótt um að fá að gangast undir námsmat sem ígildi endurtöku. Kennari metur í hverju endurtakan verður fólgin, prófi og/eða verkefni í samráði við aðstoðarskólameistara.
  5. Til að standast áfanga þarf lágmarkseinkunn 5. Þó er nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í tveim áföngum ef um lokaáfanga eða staka áfanga er að ræða. Þeir áfangar gefa ekki einingar.
  6. Nemendur í dreifnámi geta sótt um að endurtaka lokapróf í sérgreinum brauta.
  7. Skólaráð getur veitt undanþágur frá ofantöldum ákvæðum.

Please publish modules in offcanvas position.