Nú eru vonir um að fá hópa í bóklegum áföngum inn skólann á þessari haustönn brostnar. Nýjar sóttvarnarreglur sem gilda frá og með 18. nóvember – 2. desember útiloka að hægt sé að taka á móti nemendum í áfangaskóla eins og vonast var til, þar sem blöndun milli hópa er óheimil, þ.e. nemendur mega ekki fara á milli kennslustofa eða hitta mismunandi hópa innan hvers dags.

Kennsla í FVA verður því áfram með sama fyrirkomulagi og verið hefur, þ.e. fjarkennsla í bóknámi en kennt í staðnámi í iðngreinum og á starfsbraut þar sem nemendur eru alltaf með sama hópnum. Mötuneyti er áfram opið fyrir verknámsnema, stjórnendur og verknámskennara í húsi. Heimavistin er opin fyrir nema í verknámi en lokuð um helgar, þó er hugsanlegt að hafa opið helgina 12.-13. des (milli námsmatsdaga). Stjórnendur eru áfram til skiptis í húsi, skiptiborðið alltaf opið.

Lokapróf í bóklegum áföngum í desember verða rafræn og ekki í húsi. Sú ákvörðun er tekin með öryggi og heilsu nemenda og kennara að leiðarljósi. Svipað fyrirkomulag er í sambærilegum áfanga- og starfsnámsskólum á landinu öllu.

Vissulega eru þetta vonbrigði en það er skást í stöðunni að setja ekki fleiri í smithættu þegar svo stutt er eftir af önninni. Vonast er til að það að eyða nú þegar óvissu um fjar- eða staðnám til annarloka verði til þess að nemendur og kennarar geti skipulagt næstu skref og einbeitt sér að því að ljúka önninni með eins miklum sóma og hægt er miðað við aðstæður.

Verið er að leggja drög að útfærslu á brautskráningu 18. desember m.v. sóttvarnarreglur.

Please publish modules in offcanvas position.