Okkur í Heilsueflingarteyminu langar að senda ykkur smá pepp fyrir miðannarfríið. Þetta eru skrítnir tímar en það er svo mikilvægt fyrir geðheilsuna að berjast við Kórónu stórvinkonu okkar með æðruleysi og seigluna að vopni. Sætta okkur við óvissuna og það sem við höfum ekki stjórn á, fylgja fyrirmælum og reyna að gera það besta úr hlutunum. Æfa okkur í að hugsa jákvætt. Skrúfa aðeins niður væntingarnar og setja sjálfsumhyggjuna í forgang 😊

Hér koma nokkur góð ráð frá okkur til ykkar, heilsuráð sem geta gert gæfumuninn: 

  • Förum snemma í háttinn - og best að taka ekki símann (með öllum sínum "notifications") með inn í svefnherbergið, notum frekar gamaldags vekjaraklukku. 
  • Borðum reglulega og nærum okkur vel á matmálstímum - það minnkar nartþörf og ísskápaæði í tíma og ótíma. Talandi um ísskápa og aðra skápa að þá borðum við auðvitað fyrst og fremst það sem er til í skápunum heima. Gott ráð er því að draga úr óhollustunni þar en eiga nóg til af hollustu. 
  • Stöndum upp í frímínútunum og teygjum úr okkur, síðan er ekki vitlaust að gera smá styrktar- eða teygjuæfingar öðru hverju yfir daginn, eitthvað sem vekur vöðvana og ýtir við blóðrásinni. Ef ykkur skortir hugmyndir þá eru ótal hugmyndir að æfingum á YouTube og samfélagsmiðlum, við mælum t.d. með þessari facebook síðu: https://www.facebook.com/FitBody365.is/  
  • Hreyfum okkur utandyra - það er svo frískandi fyrir sál og líkama. Nýtum náttúruperlurnar í okkar nánasta umhverfi; Fjallið, Langasand, Elínarhöfða, Kalmansvík, skógræktirnar allar... náttúran gefur okkur nefnilega einhvern X-faktor fyrir sálina. 
  • Pössum upp á hvert annað. Það er mikilvægt að rækta fjarsamskipti við vini okkar og fjölskyldu en höfum líka samband við þá kunningja okkar sem ekki eiga t.d. þéttan vinahóp og eru líklegir til að verða félagslega einangraðir eða einmana. 

Við vonum að þið eigið gott miðannarfrí og nýtið það í eitthvað sem gefur ykkur orku og gleði og hjálpar ykkur að hlaða batteríin. Það getur verið svo margt og er háð því hvernig ykkur líður og hvað líkaminn þarf þá stundina. Sofa vel og hvíla sig, vera í (fjar)samskiptum við fólkið ykkar, stunda íþróttir eða keyra upp púlsinn með æfingum, horfa á netflix, púsla, prjóna eða lesa bók, borða góðan mat, fara í fjallgöngu eða sitja á bekknum við Langasand. Finnið hvað lætur ykkur líða vel og hjálpar ykkur við að minnka streitu 😊 

mindful  

Farið vel með ykkur 🙏

Húrrandi góðar kveðjur frá Heilsueflingarteyminu 😎

Please publish modules in offcanvas position.