solifvaÁgætu kennarar, starfsmenn og nemendur FVA.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og þakka fyrir samfylgdina í vetur.

Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fimmtudag í lok apríl. Þennan dag eru oftast hátíðahöld um land allt og frí hjá nemendum og starfsfólki sem er skemmtilegur siður í okkar kalda landi. Nú verður minna um skrúðgöngur en hver og einn getur þó klætt sig upp á í dag og farið í sína eigin skrúðgöngu um nágrennið. Okkur veitir sannarlega ekki af upplyftingu eftir hremmingar síðustu vikna. Þessi vetur kórónaði allt!

Ekki sér fyrir endann á ríkjandi samkomubanni og lokun framhaldsskólans. Einvera og fjarkennsla fara misvel í fólk, sumir taka henni fagnandi en hjá öðrum renna dagarnir saman í eitt og depurð og leiði geta verið skammt undan. Það nýjasta er að hittast í netheimum og eiga þar skemmtilegar samverustundir, það geta verið spilakvöld eða matarboð og allt þar á milli. Mikilvægast er að einangrast ekki og leita aðstoðar ef erfiðar hugsanir sækja á. Tölum saman; samstarfsfólk, vinir, vinkonur, foreldrar og ungmenni; um það sem er að gerast í lífinu, náminu, huga okkar og hjarta.

Sitthvað hefur breyst síðustu vikur, hlutir sem gengið var að vísum eins og að mæta í skólann, hitta vini sína og knúsa ömmu gömlu eru ekki í boði eins og er. Kennarar og nemendur vinna heima, sumir eru með fjölskylduna í fanginu við vinnu sína og þurfa bæði að sinna krefjandi verkefnum og sjá um heimilið. Álagið getur verið ansi mikið.

Víðs vegar í heiminum eru allir að kljást við það sama, að halda sjó þar til veiran lognast út af. Það eina sem ræður niðurlögum hennar er að hindra að hún breiðist út. Gleymum ekki að þetta líður hjá og sumarið er á næsta leiti. Og við erum alltaf að gera okkar besta, þótt stundum sé það meira og stundum minna.

Steinunn Inga
skólameistari

Please publish modules in offcanvas position.