Sælt veri fólkið,

þá er síðasti vetrardagurinn orðinn að staðreynd og við göngum auðvitað bjartsýn út í snjólaust vorið og sumarið mót hækkandi sól og með fuglasöng í eyrum, vúhú! Kveðjum skítaveður vetrarins með ekki svo miklum söknuði og njótum þess að bókstaflega horfa á grasið grænka þessa dagana. Það er nú lán í óláni að kórónaveiran hafi verið að hrella okkur meðan við vorum að sigla inn í vorið en ekki veturinn 😉

Okkur langar að peppa ykkur svolítið upp í að nýta nú góða veðrið framundan í hreyfingu utan dyra til að vekja vöðvana, hreinsa hugann og næla sér í leiðinni í dass af andlegri næringu og orku. Við erum svo heppin að eiga fullt af náttúruperlum við Akranes sem er kjörið að nýta; Langasand, Garðalund (nýju og gömlu skógræktina þar), Elínarhöfða, Innsta-Vogsnesið, Kalmansvík, Krókalónið, Breiðina, skógræktina upp við Akrafjall, malarstígana við fjallið í báðar áttir og svo auðvitað Akrafjallið sjálft. Þar er kjörið að byrja á að ganga upp Selbrekkuna og svo hægt að ganga t.d. inn með dalnum eða upp á Guðfinnuþúfu eða jafnvel Geirmundartind, eða ganga hinum megin áleiðis að Háahnjúk. Síðan er hægt að fara góðan hring (gangandi, hjólandi eða skokkandi) á malarvegum t.d. frá golfvellinum, gegnum rörið, framhjá mótorkross æfingasvæðinu (beygja þar til vinstri), framhjá Sorpu, svo niður hjá hesthúsunum við Æðarodda og enda hjá Bónus, svo eitthvað sé nefnt. Og styttri hring t.d. frá tjaldstæðinu við Kalmansvík (nú eða byrja við FVA), út að Elínarhöfða, áfram framhjá Höfðavík og hundasvæðinu og út á gamla þjóðveginn þar í átt að Bónus, jafnvel með viðkomu á Innsta-Vogsnesinu. Við búum svo vel hér að komast út í náttúruna á núll einni!

Kostir þess að hreyfa sig úti eru nánast óteljandi, eins og fjallað er um í grein á frábæru heimasíðunni Vertu úti.

Það kostar ekkert, þú færð meira út úr æfingunni (miðað við t.d. að ganga/hlaupa á bretti), þú færð hreint og ferskt loft, nælir þér í D-vítamín yfir hásumarið og síðast en ekki síst hefur útivera þennan andlega X-faktor og bætir skap og líðan. Bara opna dyrnar og fara aðeins ÚT! Núna er sko algjör óþarfi að nota bílinn sem úlpu 😉

Þess má geta að ný þáttasería af þáttunum Úti var að hefjast á RÚV síðastliðinn sunnudag 😉 

Fyrir þá sem vilja reima á sig hlaupaskóna þá er t.d. hægt að næla sér í ókeypis hlaupaprógramm fyrir 10 km hlaup sem hlauparinn Arnar Pétursson útbjó, mjög sniðugt.

Í fjarnáminu og fjarkennslunni er líka kjörið að þræða æfingarnar inn í daglegt líf og gera þær smám saman yfir daginn, það hressir kroppinn og hugann ótrúlega við og þarf ekki að taka nema eina mínútu hér og þar. Hérna koma nokkrar góðar hugmyndir, t.d. nokkrar armbeygjur, hnébeygjur, magaæfingar, stóldýfur eða planka og svo er auðvitað nauðsynlegt að standa upp og teygja úr sér reglulega.

Höldum í jákvæðnina, þakklætið og gleðina. Vorið er komið, veiran virðist á undanhaldi og bjartari tímar framundan ❤️

Gleðilegt sumar! 

Kveðjur frá Heilsueflingarteyminu 😎

Please publish modules in offcanvas position.