skutlanNú stefnir í að samkomubanni verði aflétt í nokkrum skrefum. Hið fyrsta verður stigið 4. maí en þá mega 50 koma saman í stað 20 manns nú.  Ég met stöðuna svo að ekki sé áhættunnar virði að boða alla nemendur í skólann aftur í þann stutta tíma sem eftir er miðað við þær kringumstæður sem nú ríkja. Nemendur verða þá á ferðinni í skólahúsnæðinu og ekki er hægt að halda viðunandi 2 metra fjarlægð í kennslustofum, á göngum og svæðum þar sem umferð er mikil. Ég vil ekki taka þá áhættu að upp komi smit hér í skólanum með tilheyrandi sóttkví og einangrun kennara og nemenda. Sama gildir um flesta aðra framhaldssskóla á landinu. Kennsla úr fjarlægð og rafræn próf eru veruleikinn sem blasir við núna og námsmatsdagar hafa þegar verið birtir í INNU. Aðstæður eru undarlegar og sannarlega erfiðar en við ætlum að hrista þessa veiru af okkur og það gerum við með sem minnstum samgangi.

Sú hugmynd er þó uppi hér í FVA að verknámsnemar fái þann 4. maí að koma í lotum eða litlum hópum til að geta klárað verklega hluta námsins og sömuleiðis starfsbrautin okkar. Þó hefur endanlegt leyfi ekki verið veitt hjá ráðuneytinu svo þetta er ekki alveg ákveðið (já, hún er erfið þessi óvissa!). Við erum samt byrjuð að hugsa um slíkt skipulag fyrir þessa nemendur og verða hlutaðeigandi látnir vita þegar nær dregur. Framkvæmdin verður líklega á þá leið að allir fara eftir merktum leiðum innan hverrar deildar, mötuneyti er lokað og hver deild fer inn um sérinngang. Allir eru hvattir til að nota grímu og hanska og af spritti verður nóg.

Bókasafnið verður opið fyrir þessa nemendur frá 4. maí, svo fremi sem reglum um sóttvarnir og 2 metra fjarlægð milli fólks sé fylgt til hins ítrasta. Beðið er tilskipunar frá ráðuneyti um þetta, í framhaldi setjum við upp áætlunina um framkvæmdina og látum nemendur vita.

Ég minni í hinsta sinn á kennslukönnun í INNU og könnun um hvernig námið gengur. Kannanirnar verða opnar til 4. maí, svör eru rosalega vel þegin því við notum niðurstöðurnar til að bæta skólastarfið.

Ef þig vantar leiðsögn eða aðstoð eða finnur fyrir kvíða eða depurð eru námsráðgjafar FVA boðnir og búnir að aðstoða. Ekki hika við að hafa samband.

Þetta er allt og sumt sem ég get upplýst ykkur um þessa stundina. Haldið áfram að standa ykkur eins og hetjur. Við ætlum að komast heil og hraust út í sumarið.

Njótið helgarinnar,
Steinunn Inga,
skólameistari FVA

Please publish modules in offcanvas position.