Kæru nemendur og aðstandendur!

Nú hefur skólinn starfað í samkomubanni í þrjá kennsluvikur. Ein helsta áskorunin í skólastarfinu er að halda takti þrátt fyrir undarlegt ástand og óvissu sem ríkir í samfélaginu. Allt bendir til þess að enn sem komið er hafi skólastarfið gengið vonum framar.

Nú er páskafrí framundan og kennsla hefst að nýju miðvikudaginn 15. apríl. Það er stefna okkar sem störfum í FVA að nemendur haldi áfram að fá næg tækifæri til að ná sér á strik í náminu og samstarf heimila og skóla er sem fyrr afar mikilvægt.

Skólinn hefur einsett sér að leita allra leiða til að halda starfinu gangandi og ljúka vorönn 2020 samkvæmt skóladagatali í maí. Gert er ráð fyrir því að fjarnámsumhverfið haldi áfram að loknu páskafríi og verða nemendur upplýstir sérstaklega með góðum fyrirvara verði breyting þar á.

Í INNU hefur verið sett upp nemendakönnun. Markmiðið er að fá að heyra nafnlaust og órekjanlega hvernig gengur og hvað má betur fara. Því biðjum við alla nemendur að taka þátt! Einnig er kennslukönnun í gangi eins og venjulega á hverri önn og mikilvægt að koma skoðun sinni þar á framfæri en niðurstöður þeirra eru mikilvægar fyrir innra mat og stefnu skólans. Ef þú ert ekki búin/n að svara kennslukönnun viltu þá gera það núna?

Nauðsynlegt er að allir nemendur hafi tæknilegar forsendur til að taka þátt í fjarkennslu. Komi upp vandamál varðandi búnað eða tækni er hægt að leita til tækniþjónustu FVA, senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Nemendur eru enn og aftur hvattir til að leggja sig fram um að koma sér upp rútínu og halda henni í páskafríinu. Reglulegur svefn, hreyfing og slökun yfir daginn eru góð leið til halda orkustiginu uppi og gera okkur auðveldara að fara aftur á stað af fullum krafti þegar skólastarfið fer aftur í gang eftir páskafrí.

Við þökkum nemendum og aðstandendum gott samstarf á krefjandi tímum og óskum ykkur gleðilegrar páskahátíðar.

Skólameistari

Please publish modules in offcanvas position.