Þá er kærkomið páskafrí alveg að detta í hús og okkur í Heilsueflingarteyminu langar að halda áfram að gefa ykkur nokkur góð heilsuráð, núna um mataræðið.

Í allri heimaverunni hafa eflaust margir dottið óþarflega djúpt í nammi- og snakkskálarnar og standa sig kannski að því að vera sífellt nartandi eða kíkjandi í skápana heima. Það að borða reglulega yfir daginn, sleppa ekki máltíðum og borða sig mátulega saddan hjálpar til við að draga úr nartþörf og sykurlöngun. Líka það að borða fjölbreyttan mat og jafnvel hafa alls konar liti á disknum og mismunandi bragð og áferð matar. Ef við borðum lítið fyrri partinn er líklegra að við fáum sykurlöngun og borðum yfir okkur seinni partinn eða um kvöldið. Eins ef maður setur sér mjög stíf boð og bönn varðandi mataræðið þá fáum við kannski óhollustuna frekar á heilann. Reynum frekar að vinna í að bæta hollu við mataræðið, t.d. borða oftar grænmeti og ávexti - helst með sem flestum máltíðum og millibitum. Jafnvægi er lykillinn að hollustu ásamt ágætis skipulagi.
 
En það er eðlilegt að fá sykurlöngun eða "cravings" og langa t.d. í súkkulaði eða eitthvað sætt. Þá getur aldeilis verið gott að hafa verið aðeins á undan sér og eiga hollari valkosti til heima, því við borðum auðvitað fyrst og fremst það sem er til í skápunum, ekki síst núna (!). Hér koma nokkrar góðar hugmyndir af hollari valkostum:
  • Ávextir og ber geta oft slegið á sykurlöngun. Ávextir eru oft girnilegri og aðgengilegri niðurskornir og ávaxtasalat er frábær eftirréttur. Það er líka hægt að dýfa þeim í brætt dökkt súkkulaði... nammi namm. Mörgum finnst frosin ber (t.d. vínber og bláber) og frosið mangó algjört lostæti, svo dregur það líka úr matarsóun (þ.e. skola og skella í frystinn þegar berin fara að verða slöpp). 
  • Ósaltaðar hnetur og þurrkaðir ávextir eru líka gott nart í (lítilli) skál.
  • Ferskar döðlur með möndlusmjöri eru algjört nammi namm. Döðlur með steini eru vanalega geymdar í grænmetiskælinum, svo tekur maður steininn úr og fyllir döðluna með möndlusmjöri. Skellir svo í frystinn og borðar kalt - truflað gott! Skorum á ykkur að borða þær samt ekki í tugatali 😉
  • Alls konar uppskriftir af hollari sætindum eru á netinu, t.d. hér.
  • Við mælum líka með þessum uppáhalds uppskriftum en annars er bara um að gera að skoða uppskriftir og prófa sig áfram 🙂
Samviskubit og sektarkennd hjálpa sko engum og allt er best í hófi. Í guðanna bænum fáið ykkur því t.d. páskaegg ef ykkur langar til þess og njótið þess í botn, og njótið þess sömuleiðis að borða góðan sparimat yfir páskana. Það er gott viðmið almennt séð að fá sér hollt á undan óhollu, þá borðum við minna af því óholla af því við erum ekki lengur eins svöng og gráðug 😉 Og nammiát getur líka orðið að vana þannig að sleppum því helst að borða nammi sem okkur finnst ekki einu sinni gott.
 
Í lokin langar okkur að benda ykkur á 10 góð heilræði frá Landlæknisembættinu um hvernig við getum hlúð að okkur á tímum kórónuveirunnar. Þau eru aðgengileg hér á íslensku, ensku og pólsku.
heildraedi1

Please publish modules in offcanvas position.