Við vonum að önnur fjarnámsvika sé að fara nokkuð vel með ykkur. Nú þegar búið er að stöðva allar íþróttaæfingar og loka líkamsræktarstöðvum og sundlaugum þurfum við, nú sem aldrei fyrr, að vera dugleg að hreyfa okkur heima við og úti. Hér ætlum við að gefa ykkur nokkrar góðar hugmyndir:

 • Göngutúrar standa alltaf fyrir sínu! Og útivera almennt, hún nærir svo sálina. Um að gera að nýta sér náttúruperlurnar okkar eða bara skella sér einn hring í hverfinu í "frímínútum". Ganga helst rösklega.
 •  Í „frímínútum“ er líka hægt að hressa sig við með stuttum æfingum, t.d. 10 armbeygjum og 20 hnébeygjum. Nú eða bara standa upp og teyja vel úr sér 😉 
 • Á YouTube, Pinterest og samfélagsmiðlum er að finna ótal hugmyndir að heimaæfingum, um að gera að grúska og leita að því sem hentar hverjum og einum. Við mælum t.d. með þessum slóðum:
 • Helena okkar hefur sett inn hugmyndir af nokkrum æfingum sem hægt er að gera úti.
 • YouTube rásin https://www.youtube.com/heatherrobertsoncom en þetta eru svona HIIT æfingar (high intensity interval training; stuttar æfingar t.d. í 30 sek, pása í 10 sek). Þarna má finna fullt af æfingum bæði með eigin líkamsþyngd og lóðum, miserfiðar og hver og einn aðlagar æfingar eftir eigin getu. Á þessari rás er t.d. hægt að finna 3 mánaða prógramm (um 30 mín hver æfing) og líka allskonar stakar æfingar, allt ókeypis auðvitað.
 • YouTube rásin https://www.youtube.com/user/yogawithadriene fyrir þá sem hafa áhuga á að prófa jóga. Þarna eru alls konar ókeypis æfingar fyrir byrjendur og lengra komna. Bæði stakar æfingar (miserfiðar, sumar meiri hugleiðsla, aðrar af meiri ákefð) og þarna eru líka t.d. alls konar 30 daga prógrömm (fyrir þá sem vilja láta leiða sig áfram, stig af stigi).
 • Á íþróttasíðunni Klefinn.is koma inn daglegar heimaæfingar frá þekktu íþróttafólki.
 • Crossfit Ægir er líka að setja daglegar heimaæfingar (án búnaðar) inn á instagram og sýna hvernig á að framkvæma æfingarnar.
 • Crossfit og Metabolic Akranesi eru að lána iðkendum sínum búnað (lóð, bjöllur o.fl.). En það er líka hægt að nota ýmsa hluti að heiman fyrir þá sem ekki eiga lóð og auðvitað hægt að gera fjölmargar æfingar með eigin líkamsþyngd 🙂
 • Svo, óháð hreyfingunni, viljum við líka benda ykkur á Dótakassann, sem er gott hlaðvarp sálfræðings og framhaldsskólakennara um geðheilsutengd málefni fyrir ungt fólk og bara alla (s.s. kvíða, frestun, óvissu, álag o.fl.).
 • Og að lokum er hér að finna ýmsa ókeypis fjarviðburði á döfinni frá t.d. tónlistarfólki.

Börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mín á dag (bæði miðlungserfið og erfið hreyfing). Fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í a.m.k. 30 mín á dag en erfiða hreyfingu a.m.k. 2x í viku í 20-30 mín í senn. Tíminn þarf ekki alltaf að vera samfelldur heldur má skipta honum upp í t.d. 10-15 mín í senn. 

Það þarf nú örugglega ekkert að minna á gildi hreyfingar fyrir líkamlega og andlega heilsu en nánari upplýsingar um hreyfingu má sjá á Heilsuveru.

Fjölbreytt hreyfing er alltaf af hinu góða þar sem við hugum að bæði þoli og styrk en einnig liðleika og jafnvægi. En aðalmálið er að gera eitthvað sem maður hefur gaman af og hreyfa sig reglulega! Koma hreyfingu í rútínu. Regluleg hreyfing stuðlar að betri svefni, okkur líður betur og borðum hollara 👍

Þá er bara að koma sér af stað og skella sér t.d. í smá göngu - öll hreyfing telur 👍

happy giphy

Please publish modules in offcanvas position.