Fyrsta vikan fjarri hlýjum kennslustofum FVA er að baki. Kennarar skólans brugðust bæði hratt og af æðruleysi við því að umbylta kennslunni á örfáum dögum og nýttu margs konar miðla sem þeir sumir höfðu aldrei áður prófað, m.a. hið alræmda Teams sem nú er orðið tíska um land allt. Þar skorti ekkert upp á fagmennsku og viðbúnað. Nemendur komust flestir fljótt upp á lagið með nám úr fjarlægð, reynt að tileinka sér rútínu í allri óreiðunni og sinna og skila verkefnum sínum eftir bestu getu. Það var því undarlegt að heyra að á rúv í gærkvöldi töluðu menn eins og ekkert væri að gerast í framhaldsskólunum. Við látum slíka fáfræði og fordóma ekki sosum trufla okkur en þetta var leiðinleg lumma.

Helgarfrí er kærkomið sem aldrei fyrr, við hvílum lúin lyklaborð og söfnum kröftum fyrir næstu viku. Byrjunarörðugleikar eru að baki að mestu, samkomubannið er orðið að viðteknum veruleika, sprittið staðalbúnaður og Teams bara leikur einn. Þegar upp er staðið höfum við líklega lært miklu meira þessa vikuna en ef allt hefði verið eins og vanalega. Njótið helgarinnar!

Steinunn Inga Óttarsdóttir.
skólameistari FVA

Please publish modules in offcanvas position.