Í gærkvöldi stóð NFFA, nemendafélag FVA, fyrir undankeppni vegna Söngkeppni framhaldsskólanna 2019. Undankeppnin var haldin á sal skólans og voru keppendur í ár þær Valfríður Guðmey Haraldsdóttir, Fanney Lísa Sveinsdóttir, Aðalheiður Fríða Hákonardóttir og Jóna Alla Axelsdóttir. Í dómnefnd sátu þau Pétur Óðinsson, Ylfa Flosadóttir og Samúel Þorsteinsson.

Keppendur stóðu sig með miklum glæsibrag og þegar þær höfðu flutt sín lög var gert hlé á meðan dómnefndin fór afsíðis og stakk saman nefjum. Í hléinu stigu þeir Garðar Snær Bragason, Edgar Gylfi Skaale Hjaltason og Guðjón Snær Magnússon á stokk og fluttu atriði úr Rock of Ages. Auk þess seldi GEY, góðgerðarklúbbur NFFA, veitingar og mun ágóðinn renna óskiptur til mæðrastyrksnefndar á Akranesi.

Svo fór að Jóna Alla Axelsdóttir bar sigur úr býtum í keppninni. Hún verður því fulltrúi FVA á Söngkeppni framhaldsskólanna 2019 sem haldin verður í Bíóhöllinni á Akranesi þann 13. apríl næstkomandi. Sent verður beint út frá keppninni á RUV og hefst útsending kl. 20:55. Í fyrra var það Menntaskólinn á Akureyri sem fór heim með hljóðnemann, hvaða framhaldsskóli ætli það verði í ár?

20190328 211528

Please publish modules in offcanvas position.