Í dag voru 47 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Athöfnin fór fram á sal skólans og hófst klukkan 14.

Við athöfnina flutti Dröfn Viðarsdóttir aðstoðarskólameistari annál haustannar 2018 og rifjaði upp helstu atriði viðburðaríkrar annar. Gyða Kolbrún Hallgrímsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema og rifjaði upp eftirminnileg augnablik skólagöngunnar. Eiríkur Jónsson fyrrverandi nemandi skólans ávarpaði útskriftarnema og ráðlagði þeim meðal annars að vera stolt og gefa af sér. Eiríkur færði skólanum þá gjöf að fjórum börnum verða færð námsgögn á vegum Unicef í nafni skólans og hvatti Eiríkur aðra til að láta gott af sér leiða með einum eða öðrum hætti.

Eftirtaldir útskriftarnemar fengu verðlaun og viðurkenningar fyrir ágætan námsárangur og störf að félags- og menningarmálum. Nöfn þeirra sem gáfu verðlaun eru innan sviga.

  • Aldís Ísabella Fannarsdóttir fyrir góð störf að félags- og menningarmálum, en Aldís tók meðal annars þátt í þremur leiksýningum á vegum nemendafélags skólans og var ein af formönnum leiklistarklúbbs (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Björn Ingi Bjarnason fyrir góð störf að félags- og menningarmálum, en Björn Ingi starfaði meðal annars í aðalstjórn nemendafélags skólans (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Davíð Orri Arnarsson fyrir góð störf að félags- og menningarmálum, en Davíð Orri var formaður ljósmyndaklúbbs (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Gyða Kolbrún Hallgrímsdóttir fyrir góð störf að félags- og menningarmálum, en Gyða Kolbrún var ein af formönnum Gey, Góðgerðafélagsins Eynis (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Halla Margrét Jónsdóttir fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi (Háskólinn í Reykjavík), ágætan árangur í stærðfræði (Gámaþjónusta Vesturlands), ágætan árangur í erlendum tungumálum (Skaginn 3X), ágætan árangur í íslensku (Verkalýðsfélag Akraness) og fyrir góð störf að félags- og menningarmálum, en Halla Margrét var formaður tónlistarklúbbs og önnur formanna Femínistafélagsins Bríetar (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Hanna Louisa Guðnadóttir fyrir góð störf að félags- og menningarmálum, en Hanna starfaði sem önnur formanna Femínistafélagsins Bríetar (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar) og fyrir ágætan árangur í ensku (Landsbankinn á Akranesi).
  • Hrafnhildur Arín Sigfúsdóttir hlaut hvatningarverðlaun til áframhaldandi náms frá (Zontaklúbbur Borgarfjarðar) og viðurkenningu fyrir góð störf að félags- og menningarmálum, en Hrafnhildur var ein af formönnum GEY, Góðgerðafélagsins Eynis, og starfaði í aðalstjórn nemendafélagsins (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Tómas Andri Jörgensson fyrir góð störf að félags- og menningarmálum, en Tómas var í aðalstjórn nemendafélags skólans (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir fyrir ágætan árangur í raungreinum (Norðurál), fyrir ágætan árangur í íslensku (Elkem Ísland) og fyrir framúrskarandi árangur í greinum sem tengjast heilsu (Embætti landlæknis).

Halla Margrét Jónsdóttir hlaut viðurkenningu skólans fyrir bestan árangur á stúdentsprófi á haustönn 2018.

Ágústa Elín Ingþórsdóttir skólameistari ávarpaði útskriftarnemendur í lokin og óskaði þeim gæfu og velfarnaðar. Síðan risu gestir úr sætum og sungu saman Bráðum koma blessuð jólin eftir Jóhannes úr Kötlum.

SH4A8938

Nýstúdentar setja upp húfur sínar

Dröfn Viðarsdóttir, Ágústa Ingþórsdóttir og Halla Margrét Jónsdóttir
F.v. Dröfn Viðarsdóttir aðstoðarskólameistari, Ágústa Ingþórsdóttir skólameistari og
Halla Margrét Jónsdóttir dúx FVA

Eiríkur Jónsson

Eiríkur Jónsson, fyrrum nemandi FVA, gaf nýstúdentum góð ráð til framtíðar

 

Please publish modules in offcanvas position.