Í gær bauð skólinn foreldrum og forráðamönnum nýnema til kynningarfundar á sal skólans og var fundurinn vel sóttur (...jafnvel þótt landsleikur gegn Belgíu hafi farið fram á sama tíma).

Dagskrá fundarins hófst með ávarpi Ágústu Elínar Ingþórsdóttur, skólameistara, sem gerði í máli sínu grein fyrir helstu þáttum skólastarfsins. Kom hún meðal annars inn á mikilvægi samstarfs heimila og skóla og ræddi hlutverk foreldra á þeim tímamótum sem verða þegar unglingar hefja göngu í framhaldsskóla. 

Að loknu ávarpi kynnti Úrsúla Ásgrímsdóttir, formaður Foreldraráðs FVA, starfsemi foreldrafélagsins og greindi frá markmiðum þess. Þær Guðrún Sigríður Guðmundsdóttir sem er náms- og starfsráðgjafi og umsjónarmaður forvarna og Íris Björg Jónsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur stigu svo í pontu og kynntu sig og sitt hlutverk fyrir foreldrum. Þá sagði Guðjón Snær Magnússon, formaður NFFA - nemendafélags FVA, frá starfsemi félagsins og lýsti helstu þáttum í félagslífi nemenda skólans. Að lokum greindu þær Kristín Edda Búadóttir og Edda Einarsdóttir frá sínu hlutverki sem félagslífsfulltrúar, en þær starfa náið með nemendafélaginu og hafa umsjón með félagslífi nemenda innan skólans.

Eftir fundinn bauðst foreldrum og forráðamönnum að kíkja inn í kennslustofur, setjast niður með kennurum barna sinna og spyrja þá spjörunum úr.

 

Please publish modules in offcanvas position.