GLEÐILEGA PÁSKA
GLEÐILEGA PÁSKA
Kennsla hefst að nýju miðvikudaginn 24. apríl
GLEÐILEGA PÁSKA
GLEÐILEGA PÁSKA
Kennsla hefst að nýju miðvikudaginn 24. apríl

Í gær var haldin minningarstund í FVA um fyrrum nemanda skólans Einar Darra Óskarsson. Einar Darri var 18 ára ungur drengur í blóma lífsins þegar hann varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 25. maí síðastliðinn eftir neyslu róandi lyfja.

Minningarstundin hófst á því að skólameistari flutti ávarp. Í því kom fram að fráfall Einars Darra hafi verið nemendum og starfsfólki skólans mikið reiðarslag og þau hafi verið óþyrmilega minnt á hversu lítils megnug þau eru þegar slík áföll verða. Fólki verður orða vant og spyr sig hvers vegna forsjónin hrífi skyndilega á brott ungan og efnilegan mann frá ástvinum, ættingjum og skólafélögum.

Í ávarpi skólameistara kom einnig fram að Einar Darri hóf nám við Fjölbrautaskóla Vesturlands haustið 2016. Þá hafi skólasamfélagið strax kynnst þeim góðu mannkostum sem hann bjó yfir. Einar Darri var mjög ljúfur og dagfarsprúður piltur og öll hegðun hans og framkoma til fyrirmyndar. Hann átti fjölmarga vini í skólanum og er sárt saknað meðal nemenda og starfsfólks. Eftir lifir minning um góðan dreng og þakklæti fyrir að hafa mátt njóta samvista við hann.

Skólameistari sagði frá því að fjölskylda og vinir Einars Darra hafi nú stofnað minningarsjóð í nafni hans, sem ætlaður er fyrir ungmenni í fíknivanda. Minningarsjóður Einars Darra stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi. Það er hreint aðdáunarvert hversu miklu hópurinn hefur áorkað á skömmum tíma með kærleikann að leiðarljósi. Sú vinna sem farin er af stað og nálgunin sem valin hefur verið í fræðslu til ungmenna um hætturnar sem fylgja notkun róandi og ávanabindandi lyfja lætur engan ósnortinn. Eitt dæmi um þau áhrif sem þessi umræða hefur haft er þegar 70 manns gengu á Úlfarsfell um síðustu helgi til minningar um þá sem fallið hafa frá af völdum ofneyslu fíkniefna og lyfja. Ríkisstjórn Íslands styður baráttuna #egabaraeittlif og þjóðin öll hefur tekið höndum saman. Í sameiningu getum við unnið bug á þessum hræðilega faraldri.

Að loknu ávarpi skólameistara tóku þrír vinir Einars Darra til máls og sögðu frá kynnum sínum af honum, þau Bjarki Aron Sigurðsson, Kristján Ernir Björgvinsson og Sesselja Rós Guðmundsdóttir.

Eftir áhrifaríka frásögn þeirra og sýningu myndbands sem ástvinir Einars Darra gáfu út, sögðu náms- og starfsráðgjafi og skólahjúkrunarfræðingur FVA frá sínu starfi og starfi félagslífsfulltrúa og mikilvægi þess að nemendur leituðu til þeirra ef þeir eða aðrir sem þeir þekktu væru í vanda.

Please publish modules in offcanvas position.