Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi (FVA) starfar samkvæmt aðalnámskrá og lögum um framhaldsskóla og öðrum lögum og reglugerðum sem varða starfsemi framhaldsskóla.

Í FVA er lögð er áhersla á sex grunnþætti í öllu skólastarfinu; læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Þessa grunnþætti sem og einkunnarorð skólans, jafnrétti - virðing - fjölbreytileiki, hafa starfsmenn Fjölbrautaskóla Vesturlands að leiðarljósi í öllu starfi sínu, jafnt í kennslustundum sem í öðrum þáttum starfseminnar.

Markmið skólans er að veita öllum nemendum sínum góða menntun sem felur í sér þekkingu, leikni og hæfni í einstökum greinum, víðsýni og gagnrýna hugsun, ábyrgð og sanngirni, vandvirkni og góð vinnubrögð; vera umhyggjusamur um velferð nemenda sinna, stuðla að heilbrigðum og sjálfbærum lífsháttum, bera virðingu fyrir hverjum einstaklingi og koma fram við alla í anda jafnréttis og lýðræðis.

Í skólanum er leitast við að efla alhliða þroska allra nemenda og búa þá undir virka þátttöku í fjölbreyttu nútímasamfélagi, störf í atvinnulífi og áframhaldandi nám.

FVA hefur það hlutverk að styrkja jákvæð viðhorf til búsetu á svæðinu og miðla til nemenda menningu samfélagsins og þroska með þeim hæfni til virkrar þátttöku í mótun þess og framþróun á sem flestum sviðum. Framtíðarsýnin er sú að skólinn þróist áfram í takt við nýjustu strauma og stefnu í menntamálum.

Í FVA ríkir jákvæður og heilsteyptur skólabragur. Starfsemin byggist á jafnrétti, virðingu og fjölbreytileika. Jafn réttur og jöfn tækifæri einstaklinga og hópa eru leiðarljós skólans og er virt í öllu starfi skólans og ákvörðunum. Skólabragurinn einkennist af heimilislegu andrúmslofti, jákvæðum samskiptum nemenda og starfsfólks, og gagnkvæmri virðingu þeirra á milli. Andleg, líkamleg og félagsleg velferð nemenda er höfð að leiðarljósi og áhersla lögð á heilsusamlega umgjörð um skólastarfið.

Please publish modules in offcanvas position.