Dimission

Í dag er lokahóf útskriftarnema (dimission). Hópurinn sem útskrifast í lok annar bauð starfsfólki skólans í morgunmat klukkan átta. Í síðasta tíma fyrir hádegi var svo skemmtun á sal. Eftir hádegi fór hópurinn í óvissuferð og gleðskap dagsins lýkur svo með dansleik nemendafélagsins í Gamla Kaupfélaginu. Myndirnar hér að neðan voru teknar í dag en fleiri myndir eru á Facebook síðu skólans.

Slóvakar í heimsókn

Á fimmtudaginn í síðustu viku komu 20 slóvaskir framhaldsskólanemar í heimsókn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Nemendurnir verða hér í tíu daga og kynna sér sjálfbærni og sjálfbæra orkuöflun. Á sunnudaginn og mánudaginn fóru þau ásamt jafnmörgum nemendum FVA um Suðurland og skoðuðu meðal annars sýningu Landsvirkjunar í Ljósafossvirkjun, Hellisheiðarvirkjun og Flúðasveppi. Einnig var farið að Gullfossi og Geysi og á Þingvelli. Í gær hitti Stefán Gíslason hópinn og hélt fyrirlestur um sjálfbærni og þá hugmyndafræði sem hún byggir á. Framundan eru ferðir um Borgarfjörð og til Reykjavíkur. Gestirnir fara svo til síns heima á sunnudag.

Verkefnið er styrkt af EFTA og slóvöskum stjórnvöldum og er ætlað að miða að því að auka skilning ungs fólks á mikilvægi sjálfbærni á öllum sviðum samfélagsins. Fleiri myndir frá heimsókninni má finna á Facebook síðu skólans.

Skammhlaup

Árlegt skammhlaup var haldið þann 5. nóvember síðastliðinn.  Eins og jafnan var keppt í tugum greina og skiptust nemendur í átta lið. Keppnin hófst í íþróttahúsinu við Vesturgötu og lauk á sviðinu í sal skólans.  Að þessu sinni þá varð það fjólubláa liðið sem stóð uppi sem sigurvegari eftir þrautir dagsins.  Í verðlaun voru bíómiðar frá Bíóhöllinni á Akranesi.  Fleiri myndir frá Skammhlaupinu má finna á Facebook síðu skólans.

Skammhlaup

Árlegt skammhlaup verður haldið á morgun, fimmtudaginn 5. nóvember. Það hefst með skrúðgöngu frá skólanum að íþróttahúsinu við Vesturgötu klukkan 8:45. Um kvöldið verður dansleikur í Gamla kaupfélaginu á vegum nemendafélagsins

Innritun á vorönn 2016

Innritun fyrir nám í dagskóla á vorönn 2016 fer fram rafrænt á menntagátt og stendur yfir dagana 1.-30. nóvember.

Nánari upplýsingar og innritun fer fram á vefnum menntagátt. 

Minningarorð

Í dag er til moldar borinn Akurnesingurinn Guðbjartur Hannesson. Guðbjartur, eða Gutti eins og hann var kallaður, var landskunnur fyrir störf sín að þjóðmálum. Hann var þingmaður Samfylkingar á Vesturlandi og velferðarráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Á Akranesi sat hann auk þess í bæjarstjórn um langt skeið. Þá hafði hann á hendi forystu bæði í skátahreyfingunni og íþróttahreyfingunni; var ávallt skáti og alla tíð í hópi dyggustu stuðningsmanna ÍA.

Stærstan hluta ferils síns starfaði Gutti að skólamálum. Þegar nýr grunnskóli var stofnaður á Akranesi í byrjun níunda áratugarins, Grundaskóli, var Gutti ráðinn skólastjóri og því starfi gegndi hann í rúm 25 ár. Þar markaði hann djúp og heillarík spor fyrir æskufólk á Akranesi. Hann hafði  róttækar skoðanir, var óhræddur að framfylgja þeim og þegar Íslensku menntaverðlaunin voru veitt í fyrsta skipti komu þau í hlut Grundaskóla. Það var heiður fyrir skólann og bæjarfélagið og viðurkenning á frumkvöðlastarfi Gutta. Engu að síður var það umburðarlyndi hans og manngæska sem var mest áberandi í fari hans sem skólamanns. Hann var farsæll leiðtogi sem naut ómældrar virðingar og vinsælda í störfum sínum öllum.  

Víst er að með sviplegu fráfalli Gutta upplifa Akurnesingar sáran missi. En dýrmæt arfleifðin  sem hann skilur eftir sig mun lifa. Starfsfólk Fjölbrautaskóla Vesturlands vottar eiginkonu Gutta, dætrum hans og fjölskyldunni allri dýpstu samúð. 

Útför Guðbjarts Hannessonar

Vegna útfarar Guðbjarts Hannessonar verður skólinn lokaður frá hádegi föstudaginn 30. október. Kennsla fellur niður af þeim sökum og skrifstofa skólans verður lokuð.

Berlínarfarar

Dagana 11.-15.október fóru 23 nemendur í áfanganum EVR373 Berlín - menning, mannlíf, saga ásamt Kristínu Kötterheinrich þýskukennara í námsferð til Berlínar.  Þrammað var um Berlín þvera og endilanga, farið á söfn og merkir staðir í borginni skoðaðir, t.d. Brandenburger hliðið, þinghúsið, Berlínar múrinn og margt margt fleira.

 Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi | Vogabraut 5 | Sími: 433-2500 | skrifstofa(hjá)fva.is 
Kennitala: 681178-0239 | Opnunartími skrifstofu virka daga: 8:00-12:30 og 13:00-15:00