Jöfnunarstyrkur

Sækir þú nám fjarri lögheimili og fjölskyldu?

Kynntu þér reglur um námsstyrki og leiðbeiningar um skráningu á www.lin.is

Hægt er að skrá umsókn á Innu eða netbankanum!

Umsóknarfrestur vegna vorannar 2016 er til 15. febrúar næstkomandi!

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

Námsstyrkjanefnd

 

STUÐNINGSTÍMAR Í STÆRÐFRÆÐI

Stuðningstímar í stærðfræði verða á fimmtudögum kl. 15.50 til 16.50. Eldri nemar sjá um stuðninginn í stofu B205. Allir nemendur eru velkomnir. Þjónustan er ókeypis.

Minningarorð

Einn af frumherjunum í kennarahópi Fjölbrautaskólans er fallinn frá, Snjólaugur Þorkelsson. Snjólaugur var Skagamaður, lærði trésmíði og lauk sveinsprófi 1958. Hann starfaði síðan við Trésmiðjuna Akur þar til hann hóf störf við Iðnskólann á Akranesi 1972. Sá skóli átti sér þá langa sögu og var til húsa í gamla Gagnfræðaskólanum við Skólabraut. Tréiðnaðardeildin var hins vegar í aflögðu íþróttahúsi skólans við Vesturgötu. Þar hófst Snjólaugur handa við að kenna 18 piltum að smíða með handverkfærum og einni borvél. En þetta voru gróskutímar og deildinni óx hratt fiskur um hrygg.

Fjölbrautaskólinn var stofnaður 1977 þegar Iðnskólinn var sameinaður framhaldsdeild Gagnfræðaskólans. Tréiðnaðardeildin starfaði áfram við Vesturgötu en Snjólaugur og samverkamaður hans, Ólafur Ólafsson, sem lést fyrir allmörgum árum, stækkuðu húsnæðið verulega; að miklu leyti í sjálfboðavinnu. – Raunar áttu þeir eftir að byggja sitthvað fleira fyrir Fjölbrautaskólann með nemendum sínum, svo sem lausar kennslustofur sem stóðu á lóð skólans og voru notaðar árum saman.

Þegar Fjölbrautaskólinn varð til stækkaði verksvið Snjólaugs mjög. Þegar mest gekk á kvaðst hann hafa verið farinn að kenna um 60 tíma á viku og orðinn deildarstjóri í grunnteikningu, húsasmíði, hárgreiðslu og rafvirkjun. Aðstaðan var nokkuð erfið og teikniaðstöðuna taldist honum til að hann hefði þurft að flytja nítján sinnum áður en yfir lauk. Að öllu þessu stríði henti Snjólaugur gaman þegar frá leið. Hann var jafnan léttur í lund, gamansamur og átti gott með að segja nemendum til; var og vel þokkaður af öllum vinnufélögum. Snjólaugur lét af störfum við skólann vegna aldurs 2002. Þegar hann var spurður um kennsluaðferðir sínar sagði hann:  „Ég er búinn að vera vinnandi verkstjóri alveg frá því að ég lærði og alltaf með menn í vinnu; þá ertu bara einn af hópnum en vinnur og heldur hinum að verki. Og besta aðferðin er sú að vera til fyrirmyndar.“ – Slík kennslufræði fellur trúlega aldrei úr gildi og nú kveður skólinn þessa gömlu fyrirmynd sína með þakklæti.

Útför Snjólaugs fer fram á morgun, föstudaginn 22. janúar, klukkan 14 frá Akraneskirkju.

Undirritun samstarfssamnings afreksíþróttasvið

Í gær skrifuðu FVA, Akraneskaupstaður og ÍA undir formlegan samstarfssamning um afreksíþróttasvið FVA.  Það voru Ágústa Elín Ingþórsdóttir, skólameistari FVA, Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, og Sigurður Arnar Sigurðsson, formaður ÍA, sem undirrituðu samning fyrir hönd þessara aðila að viðstöddum nemendum á afreksíþróttasviðinu.  Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs flutti að þessu tilefni ávarp um gildi íþrótta fyrir Akranes.  Afreksíþróttasvið er fyrir nemendur sem vilja stunda sína íþótt með álagi afreksmanna samhliða námi. Það var Fjölbrautaskóli Vesturlands sem átti frumkvæði að stofnun afreksíþróttasviðsins síðastliðið vor.  Strax var farið í þetta verkefni af mikilli hugsjón og kappsemi um að koma því á fót með stuttum fyrirvara. Þetta var tækifæri sem bæði FVA og ÍA vildu nýta. Það tókst með góðum stuðningi Akraneskaupstaðar með afnotum af íþróttamannvirkjunum. Eins leggur ÍSÍ til námsefni er tengist þjálfun íþróttafólks. Í raun er það afrek útaf fyrir sig að okkur skyldi hafa tekist að gera þetta að veruleika á svo stuttum tíma, margir lögðu hönd á plóginn við undirbúning og skipulagningu og þar skiptir öllu samstaðan og viljinn til að leysa málin. Fyrstu viðtökur voru mjög góðar, alls voru 46 íþróttanemendur á afreksíþróttasviðinu á haustönninni, boðið upp á æfingar í badminton, fimleikum, knattspyrnu, körfubolta, keilu og sundi. Æfingarnar voru undir handleiðslu þjálfara hjá ÍA í viðkomandi íþróttagreinum. Almennt eru æfingar á skólatíma tvisvar sinnum í viku, auk þrekþjálfunar og annarrar fræðslu er tengist íþróttaiðkun. Nemendum stendur líka til boða að fara í morgunmat í mötuneyti FVA eftir æfingar.  Ljóst er að afreksíþróttasviðið er góð viðbót við afreksíþróttastarfið á Akranesi og miklar vonir eru bundnar varðandi framtíð þess.

Nýársdansleikur

Nýársdansleikur nemendafélagsins verður haldinn í kvöld. Kennslufall verður í fyrsta tíma á föstudag.

Fullkomið brúðkaup

Þetta árið mun NFFA setja upp gamanleikritið Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon.  Leikstjóri er Hallgrímur Ólafsson.  Leikritið segir frá ungu fólki sem er að glíma við ástina, verða ástfangið, hætta að vera ástfangið og að verða ástfangið af þeim sem það má ekki verða ástfangið af. Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni, herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað...  Fullkomið brúðkaup er frábærlega skrifaður gamanleikur, hraður, fullur af misskilningi, framhjáhöldum og ást. 

Háskóladagurinn 2016 - 5. mars kl. 12 - 16

Háskóli Íslands býður landsmönnum öllum í heimsókn laugardaginn 5. mars 2016 milli klukkan 12 og 16 þar sem í boði verða ótal viðburðir, kynningar og uppákomur sem sýna nýsköpun og vísindi í litríku og lifandi ljósi.  Allir geta kynnt sér fjölbreytt námsframboð Háskóla Íslands en yfir 400 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi eru í boði við skólann. Þá fer einnig fram kynning á margþættri og spennandi starfsemi og þjónustu. Gestir geta skoðað rannsóknastofur, tæki, búnað og húsakynni. Á staðnum verða vísindamenn, kennarar og nemendur úr öllum deildum háskólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst.

Gettu betur lið skólans komst áfram í aðra umferð

Í gærkvöldi keppti lið FVA við lið FSU í fyrstu umferð Gettu betur. Okkar fólk vann viðureignina með 29 stigum gegn 23 stigum FSU og er lið FVA því komið áfram í aðra umferð keppninnar. Við óskum þeim Önnu Eze, Elmari Gísla Gíslasyni og Jóni Hjörvari Valgarðssyni til hamingju með sigurinn.

 Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi | Vogabraut 5 | Sími: 433-2500 | skrifstofa(hjá)fva.is 
Kennitala: 681178-0239 | Opnunartími skrifstofu virka daga: 8:00-12:30 og 13:00-15:00