Annáll haustannar 2012 við Fjölbrautaskóla Vesturlands

Fjölbrautaskóli Vesturlands var settur miðvikudaginn 22. ágúst. Þá fengu nemendur afhentar stundaskrár. Regluleg kennsla hófst svo morguninn eftir, fimmtudaginn 23. ágúst. Síðasti kennsludagur á önninni var 30. nóvember. Önninni lýkur þegar skólameistari slítur þessari samkomu og þeir 49 nemendur sem nú ljúka námi hafa verið brautskráðir frá skólanum.

Í upphafi annar voru 642 nemendur skráðir í skólann. Þetta er örlítil fjölgun frá haustönn 2011 þegar fjöldi nemenda við upphaf haustannar var 623. Fjölgun nemenda núna er vegna kennslu á sjúkraliðabraut en hún hófst nú í haust.

Á önninni hættu 30 nemendur í skólanum. Auk þess hættu margir í áföngum eða voru reknir úr þeim vegna mikilla fjarvista. Þetta köllum við brottfall og var það 8,4% á önninni sem er heldur meira en það var á síðustu haustönn en þá var það var 6,7%.

*

Það var ánægjulegt hversu margir sóttu um nám á sjúkraliðabraut. Hófu rúmlega 40 nemendur nám á brautinni og luku 34 önninni. Brottfall var lítið sem er mjög ánægjulegt. Jóhanna Ólafsdóttir var ráðin til að kenna sérgreinar á sjúkraliðabraut. Guðrún Jóhannesdóttir, sem kennt hefur dönsku og fatahönnun við Fjölbrautaskólann frá hausti 1978, lætur nú af störfum. Hún hefur kennt við skólann nánast frá upphafi og er með lengstan starfsferil allra við skólann. Eru henni færðar þakkir fyrir störf hennar. Ingólfur Ingólfsson kennari í málmiðngreinum lést 23. ágúst á Sjúkrahúsi Akraness eftir veikindi. Sigurður Karl Ragnarsson var í kjölfarið ráðinn til kennslu á málmiðnabraut. Guðmundur Egill Ragnarsson forstöðumaður mötuneytisins fór í leyfi og var Birkir Snær Guðlaugsson ráðinn í hans stað. Kristján E. Guðmundsson félagsfræðikennari fór í veikindaleyfi á önninni og tóku Guðrún Vala Elísdóttir, Ólöf Samúelsdóttir og Jens Baldursson að sér að kenna félagsfræðiáfangana. Flemming Madsen kennari í rafiðngreinum og Þráinn Sigurðsson kennari í málmiðnum eru í leyfi.

*

Föstudaginn 24. ágúst kusu nýnemar Elmar Gísla Gíslason sem fulltrúa sinn í stjórn nemendafélagsins. Elmar lauk tíunda bekk í Grundaskóla síðasta vor. Aðrir stjórnarmenn voru kosnir fyrir sumarleyfi. Þeir eru Valdimar Ingi Brynjarsson formaður, Alexander Egill Guðmundsson, Arnar Freyr Sigurðsson, Arnór Bjarki Grétarsson, Sólveig Rún Samúelsdóttir og Sævar Berg Sigurðsson.

Aðalfundur Foreldraráðs skólans var haldinn 28. september. Á fundinum var kjörin stjórn fyrir skólaárið 2012 til 2013. Hana skipa Þórður Guðjónsson formaður, Alexander Eck, Anna Berglind Einarsdóttir, Hulda Hrönn Sigurðardóttir og Þórður Þórðarson. Varamenn eru Eyrún Þorleifsdóttir og Sigrún Sigmundsdóttir. Áheyrnarfulltrúi foreldraráðs í skólanefnd er Anna Berglind Einarsdóttir.

Þær breytingar urðu á skólanefnd í haust að Dagbjört Guðmundsdóttir og Thelma Hrund Sigurbjörnsdóttir voru skipaðar aðalmenn í nefndina í stað Hjördísar Garðarsdóttur og Mörtu Birnu Baldursdóttur. Auk Dagbjartar og Thelmu eru þau Helena Guttormsdóttir, Helgi Guðmundsson og Ólafur Helgi Haraldsson í skólanefndinni.

Á síðustu vorönn gerðu Trausti Þorsteinsson og Bragi Guðmundsson úttekt á starfsemi skólans fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Skýrslan var birt á vef ráðuneytisins nú í haust. Skólinn fær fína umsögn í skýrslunni og þar kemur m.a. fram að hann hafi gott starfsfólk, sé vel rekinn og að í honum ríki heilsteyptur og jákvæður skólabragur.

*

Skólinn tók þátt í tveimur Comeniusarverkefnum á þessari önn en þátttaka í þeim hófst á haustönn fyrir ári síðan og lýkur á næstu vorönn. Á vegum annars verkefnisins, Planting our future eða sáð til framtíðar, komu hingað á Akranes 9 kennarar og 18 nemendur frá 9 löndum og dvöldu í tæpa viku í september. Verkefnið fjallar um umhverfismál, sjálfbærni og umgengni manna við náttúru. Var farið með nemendur í gönguferðir um Akranes, Skógrækt ríkisins að Mógilsá heimsótt og farið í margar ferðir. Loks voru nokkur tré gróðursett við þjóðveginn til Akraness í samvinnu við Skógræktarfélag Akraness. Fengu erlendu gestirnir nokkra innsýn í íslenska náttúru og hve óblíð hún getur verið en fyrsta dag gestanna á Akranesi varð að fella niður gönguferð á Akrafjall vegna óveðurs.

Margir kennarar komu að verkefninu ásamt hópi nemenda sem tók á móti erlendu gestunum og hýstu þá. Á vegum þessa verkefnis fóru kennarar og nemendur skólans til Þýskalands, Ítalíu, Tékklands og Spánar á önninni. Þá má geta þess að í tilefni af þessu verkefni gróðursettu nokkrir kennarar blágreni og lindifuru í Miðgarði skólans en þessi tré eru gjöf frá Skógræktarfélagi Skilmannahrepps.
Á vegnum verkefnisins Work Made E@sy voru farnar tvær skólaheimsóknir.  Í aðra heimsóknina fóru tveir kennarar og tveir nemendur til Danmerkur og í síðari ferðina fóru tveir nemendur með kennara  til Ítalíu.  Auk þessa hafa nemendur unnið að minni verkefnum eins og t.d. viðtölum við útlendinga á Íslandi.

West-Side var haldið í október en þá bauð Nemendafélag Fjölbrautaskóla Snæfellinga Menntaskólanum í Borgarnesi og okkar skóla til Ólafsvíkur. Þar var keppt í íþróttum og haldin spurningakeppni. Um kvöldið var svo dansað. Þótti þetta samstarf nemendafélaganna takast vel og verður vafalaust framhald á því.

Ýmislegt fleira gerðist á önninni: haldnir voru dansleikir, nokkur kaffihúsakvöld og hið árlega Skammhlaup heppnaðist að venju vel.
Á vegum verkefnisins heilsueflandi framhaldsskóli fengu nemendur og kennarar skólans svokallað hreyfikort en skólinn stóð að viðburðum á önninni þar sem hreyfing og samvera voru í fyrirrúmi og þeir sem tóku þátt fengu stimpil á kortið sitt. Gengið var á Akrafjallið og niður að vita, stöðvaþjálfun, útihlaup og útileikir. Í lokin var svo dregið úr hreyfikortunum og fengu eigendurnir gjafir sem nokkur fyrirtæki voru svo rausnarleg að gefa. Er þessum fyrirtækjum færðar þakkir og ekki síður öllum þeim nemendum og kennurum sem tóku þátt.
Læt ég nú lokið annál haustannar 2012 og óska ykkur sem útskrifist frá skólanum til hamingju með þann áfanga sem þið hafið náð um leið og ég hvet ykkur til að halda áfram að afla ykkur menntunar og þroska. Þið megið vera stolt af að hafa lokið námi við Fjölbrautaskóla Vesturlands og við sem hér störfum erum stolt af ykkur og því sem þið gerið gott í framtíðinni.

Jens B. Baldursson

Please publish modules in offcanvas position.