Formálar | Starfshættir | Námsbrautir | Áfangalýsingar

Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands

13. útgáfa 2013

Þeir hlutar skólanámskrár sem innihalda lýsingu á starfsháttum og námsbautum liggja hér frammi í PDF skrá.  

Formáli 13. útgáfu

Á skólaárinu 2012 til 2013 var unnið að endurskoðun á ýmsum þáttum skólanámskrárinnar. Í framhaldi af því hafa eftirfarandi breytingar verið gerðar á skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands:

 • Jafnréttisstefna skólans var endurskoðuð.
 • Stefna skólans varðandi heilbrigði og velferð var endurskoðuð.
 • Leiðbeiningum um meðferð heimilda var bætt inn í námskrána sem viðauka.
 • Prófreglu númer 2 var breytt.
 • Kafla um öryggismál var bætt inn í námskrána.
 • Kafla um áföll og áfallateymi var bætt inn í námskrána.
 • Skólasóknarreglur voru endurskoðaðar og þeim breytt.

Í júní 2013, Jens B. Baldursson aðstoðarskólameistari 

 

Formáli 12. útgáfu

Eftirfarandi breytingar hafa orðið á skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands á skólaárinu 2011 til 201

 • Breytingar hafa verið gerðar á heilsustefnu Fjölbrautaskóla Vesturlands.
 • Ný jafnréttisáætlun var unnin á skólaárinu af Ólöfu Samúelsdóttur í samvinnu við jafnréttisnefnd.
 • Smávægileg viðbót við skólareglur.
 • Breyttar reglur um niðurfellingu fjarvista af öðrum ástæðum en veikindum.
 • Reglum um frávik frá skólasóknarreglu var breytt.
 • Almennt heilbrigðisnám (AH) var skilgreint.
 • Breytingar voru gerðar á brautinni almennt tækninám (AT).

Í júní 2012, Jens B. Baldursson aðstoðarskólameistari

 

Formáli 11. útgáfu

Á skólaárinu 2010 til 2011 vann starfshópur að endurbótum á skólanámskrá. Í hópnum voru Atli Harðarson, Eiríkur Guðmundsson, Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir, Hannes Þorsteinsson, Hjördís Árnadóttir, Hörður Ó. Helgason og Jens B. Baldursson. Undir lok skólaársins bættist Helena Valtýsdóttir í hópinn og Þorbjörg Ragnarsdóttir tók sæti Hannesar. Vinna starfshópsins snerist einkum um breytingar á uppsetningu bóknámsbrauta.

Helstu breytingar sem ákveðnar voru og ganga í gildi nú um leið og þessi 11. útgáfa birtist eru eftirtaldar:

 • Heilsustefnu skólans var bætt í fyrsta kafla námskrárinnar og sérstakur kafli um vímuvarnastefnu var felldur niður.
 • Jafnréttisstefnu skólans var bætt í fyrsta kafla námskrárinnar.
 • Uppsetningu bóknámsbrauta var breytt.
 • Almenn námsbraut - tækninám var skilgreind.
 • Almenn námsbraut - viðskiptanám var skilgreind.
 • Viðskipta- og hagfræðibraut var felld niður.
 • Ákvæðum um framhaldsskólapróf var eytt úr námskránni.
 • Orðalagi á skólasóknarreglu númer 2 og á prófreglu númer 3 var breytt.
 • Reglum um frávik frá skólasóknarreglu var breytt.

Til viðbótar við þetta hafa fáeinar villur verið leiðréttar og nokkur smáatriði færð til betri vegar.

Þegar vinnu við 11. útgáfu skólanámskrár Fjölbrautaskóla Vesturlands var nær lokið gaf Mennta- og menningarmálaráðuneytið út almennan hluta nýrrar aðalnámskrár framhaldsskóla. Með þessari útgáfu eru talsvert miklar breytingar boðaðar sem skólanámskrá þarf að taka mið af. Því má vænta nokkuð mikilla breytinga á skólanámskránni á næstu misserum.

Í júní 2011, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari

   

Formáli 10. útgáfu

Á skólaárinu 2009 til 2010 voru þær breytingar helstar gerðar á skólanámskrá að bætt var inn í hana kaflanum Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Einnig voru þrjár námsbrautir lagðar niður þ.e. brautirnar: félagsmála- og tómstundabraut (FT), íþróttabraut (ÍÞ) og stóriðjubraut (STB).

Í júní 2010, Hafdís F. Ásgeirsdóttir aðstoðarskólameistari

 

Formáli 9. útgáfu

Á skólaárinu 2008 til 2009 vann starfshópur að endurbótum á skólanámskrá í samræmi við lög um framhaldsskóla sem tóku gildi vorið 2008. Í hópnum voru Atli Harðarson, Eiríkur Guðmundsson, Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir, Hannes Þorsteinsson, Hjördís Árnadóttir, Hörður Ó. Helgason og Jens B. Baldursson. Helstu breytingar sem ákveðnar voru og ganga nú í gildi um leið og þessi 9. útgáfa birtist eru eftirtaldar:

 • Inntökuskilyrðum á námsbrautir var breytt, enda ekki lengur hægt að miða við einkunnir á samræmdum prófum við lok 10. bekkjar þar sem þau hafa verið lögð niður.
 • Skilgreint var framhaldsskólapróf af almennri braut og af öllum öðrum námsbrautum sem eru 52 einingar eða meira. Skilgreiningin er skráð neðan við lýsingu hverrar námsbrautar.
 • Bætt var við nýjum ákvæðum um mat á ýmsum námskeiðum, óformlegu námi og starfsreynslu.
 • Í kafla um námsmat og próf bættist við undirkafli um verkefni og verkefnaskil.
 • Uppsetningu á brautarlýsingum iðnbrautanna HÚ8, RK8, RK9 og VS8 var breytt.

Til viðbótar við þetta hafa fáeinar villur verið leiðréttar og nokkur smáatriði færð til betri vegar.

Í júní 2009, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari

   

Formáli 8. útgáfu

Á skólaárinu 2007 til 2008 var unnið að nokkrum endurbótum á skólanámskrá. Helstu breytingar sem ákveðnar voru og ganga nú í gildi um leið og þessi 8. útgáfa birtist eru eftirtaldar:

 • Í kafla um viðbótarnám til stúdentsprófs eftir starfs- eða listnám hefur verið bætt skilgreiningu á tæknistúdentsprófi sem unnin var í samráði við frumgreinasvið Háskólans í Reykjavík.
 • Bætt hefur verið inn ákvæðum um mat á þátttöku í störfum fyrir nemendafélag skólans.
 • Bætt hefur verið við kafla um þjónustu við nemendur með sértæka námserfiðleika.
 • Ákvæði um fjarnám hafa verið endurskoðuð og gerð ítarlegri og kafli um P-heimildir hefur verið felldur niður.

Til viðbótar við þetta hafa fáeinar villur verið leiðréttar og nokkur smáatriði færð til betri vegar.

Í júní 2008, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari

 

Formáli 7. útgáfu

Á skólaárinu 2006 til 2007 var unnið að endurskoðun á nokkrum köflum skólanámskrárinnar. Helstu breytingar sem ákveðnar voru og ganga nú í gildi um leið og þessi 7. útgáfa birtist eru eftirtaldar:

 • Bætt hefur verið við einni skólareglu og er hún númer 2 of fjallar um einelti og viðbrögð við því. Reglan sem var númer 2 er nú númer 3 o.s.frv.
 • Í kafla um utanskólanám og fjarnám hefur verið bætt inn viðmiðum um fjarkennslu.
 • Settar hafa verið nýjar reglur um mat á námi úr öðrum framhaldsskólum.
 • Reglum um mat á þjálfun hjá íþróttafélagi hefur verið breytt.
 • Inntökuskilyrði á viðskipta- og hagfræðibraut hafa verið sett í samræmi við ákvörðun menntamálaráðuneytis.
 • Horfið hefur verið frá því að telja landafræði og jarðfræði saman sem eina námsgrein á kjörsviði náttúrufræðibrautar.

Til viðbótar við þetta hafa fáeinar villur verið leiðréttar og nokkrar áfangalýsingar uppfærðar.

Í júní 2007, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari

Formáli 6. útgáfu

Á skólaárinu 2005 til 2006 var unnið að endurskoðun á markmiðskafla skólanámskrár og niðurstaða þeirrar vinnu birtist hér í 6. útgáfu skólanámskrár. Aðrar breytingar frá 5. útgáfu eru þær helstar að: Reglum um skráningu fjarvista, viðurlög við þeim og einkunn fyrir skólasókn hefur verið breytt sem og reglum um niðurfellingu fjarvista af öðrum ástæðum en veikindum; Brautalýsingum í rafiðngreinum hefur verið breytt til samræmis við breytingu á aðalnámskrá; Fjórðu bóknámsbrautinni, viðskipta- og hagfræðibraut, verið bætt við, en maí á þessu ári samþykkti Alþingi breytingu á lögum um framhaldsskóla (nr. 80 frá 1996) sem heimilar skólum að bjóða upp á viðskipta- og hagfræðibraut til stúdentsprófs; Fáeinar villur hafa verið leiðréttar og lista yfir sveitarfélög sem aðild eiga að samningi um skólann verið breytt þar sem sveitarfélög hafa sameinast.

Í ágúst 2006, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari

   
Formáli 5. útgáfu

Síðan 4. útgáfa Skólanámskrár Fjölbrautaskóla Vesturlands kom út hefur verið ákveðið að taka upp kennslu á tveim nýjum námsbrautum við skólann, félagsmála- og tómstundabraut og tölvufræðibraut. Ein námsbraut, uppeldisbraut, hefur verið lögð niður enda er hún ekki lengur til í Aðalnámskrá framhaldsskóla.
   Í fyrsta hluta námskrárinnar, sem fjallar um starfshætti skólans, hafa nokkrar breytingar verið gerðar á skólareglum. Þær helstu eru:

 • Endurskoðun á reglum um skráningu fjarvista, viðurlög við þeim og útreikning skólasóknareinkunnar.
 • Felld hefur verið niður regla um námskröfur sem var á þessa leið: „Falli nemandi á önn á hann rétt á að láta þá áfanga standa þar sem hann hefur fengið einkunnina 7 eða hærra, haldi nemandi áfram námi við skólann.“ (Rökin fyrir þessu eru að sú venja hefur skapast að láta alla áfanga standa þar sem nemandi hefur fengið einkunn 5 eða hærri.)
 • Úr prófreglum hefur verið fellt niður ákvæði þess efnis að óheimilt sé að gefa nemendum upp árangur þeirra á prófi áður en einkunnir eru afhentar með formlegum hætti.
 • Bætt hefur verið inn köflum um skráningu og meðferð upplýsinga og um aðgang nemenda og forráðamanna þeirra að upplýsingum.

   Í fyrsta hluta námskrárinnar hefur einnig verið bætt nýjum kafla um mat á ýmislegu námi. Tveir síðustu undirkaflar hans voru áður í kafla um námsframvindu. Hinir undirkaflarnir eru nýir. Ennfremur hefur verið bætt inn stuttum kafla um sjálfsmat.
   Breytingar á brautalýsingum hafa verið gerðar í samræmi við breytingar á Aðalnámskrá framhaldsskóla. Ennfremur hafa einstakar áfangalýsingar verið endurskoðaðar.

Í júní 2005, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari
   

Formáli 4. útgáfu

Síðan 3. útgáfa Skólanámskrár Fjölbrautaskóla Vesturlands kom út hefur menntamálaráðuneytið kynnt breytingar á námi í bygginga- og mannvirkjagreinum. Í þessari útgáfu eru því nýjar brautarlýsingar fyrir grunnnám bygginga- og mannvirkjagreina og sérnám í húsasmíði. Einnig hefur verið kunngert að námskrá í rafsuðu verður ekki til í þeirri mynd sem verið hefur. Brautarlýsing fyrir rafsuðubraut hefur því verið tekin úr skólanámskránni.
    Í janúar 2004 sendi menntamálaráðuneytið frá sér endurskoðun á almennum hluta Aðalnámskrár og hér er ýmislegt fært til samræmis við það sem þar stendur, m.a. ákvæði um kjörsvið á bóknámsbrautum.
    Nokkrar breytingar hafa orðið á skólareglum, þær viðamestu varða frjálsa mætingu (þ.e. undanþágu frá skólasóknarreglu).
    Allmargar áfangalýsingar hafa breyst, má þar helst nefna undanfarakröfur fyrir fyrstu áfanga í dönsku, ensku, íslensku, náttúrufræði, samfélagsgreinum og stærðfræði. Einnig hafa verið settar inn áfangalýsingar þar sem breyting hefur orðið á Aðalnámskrá og þar sem áfangalýsingar vantaði í eldri gerð skólanámskrár.
    Til viðbótar við það sem hér er talið hafa verið gerðar ýmsar minniháttar lagfæringar og leiðréttingar.

Í apríl 2004, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari
    

Formáli 3. útgáfu

Síðan 2. útgáfa Skólanámskrár Fjölbrautaskóla Vesturlands kom út í fyrrasumar hefur menntamálaráðuneyti kynnt breytingar á sjúkraliðabraut, reglur um kjörsvið á stúdentsbrautum hafa verið skerptar, reglum um útreikning skólasóknareinkunnar og viðbrögð skólans við fjarvistum úr kennslustundum hefur verið breytt og ýmsum smáatriðum hnikað til. Einnig hefur verið horfið frá því að gefa námskrána úr í bók og ákveðið að birta hana aðeins á vef skólans.

Í júní 2003, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari
  

Formáli 2. útgáfu

Síðan 1. útgáfa Skólanámskrár Fjölbrautaskóla Vesturlands leit dagsins ljós hefur menntamálaráðuneytið gert talsverðar breytingar á Aðalnámskrá framhaldsskóla. Nú hefur skólanámskráin verið löguð að breytingum sem ráðuneytið hefur kunngert. Einnig hafa ýmsar smávægilegar villur í 1. útgáfu verið leiðréttar og texta hnikað til á stöku stað.
    Auk ritnefndarmanna hafa allmargir kennarar, deildarstjórar, áfangastjóri og námsráðgjafar, tekið þátt í vinnu við endurskoðun skólanámskrárinnar. Öllu þessu fólki eru hér færðar bestu þakkir.

Í maí 2002, Atli Harðarson aðstoðarskólameistari
  

Formáli 1. útgáfu

Menntamálaráðuneytið gaf út Aðalnámskrá framhaldsskóla í apríl 1999. Í henni segir að hver skóli skuli gefa út skólanámskrá er lýsi námsframboði, sérkennum og sérstöðu skólans og þeim starfsháttum og verklagsreglum sem þar gilda. Námskrár einstakra greina, með nánari lýsingum á inntaki og markmiðum kennslunnar, komu svo út í kjölfar aðalnámskrárinnar.
    Vinna við skólanámskrá fyrir Fjölbrautaskóla Vesturlands hófst af krafti á haustönn 1999. Starfshópar kennara unnu að tillögum um hin ýmsu atriði er varða kennsluna og vinnubrögð í skólastarfinu í heild. Tillögurnar voru svo teknar til almennrar umræðu og afgreiðslu. Deildarstjórar hafa ásamt samkennurum haft veg og vanda að gerð áfangalýsinga. Skólastjórnendur hafa annast verkstjórn námskrárgerðarinnar og uppsetningu námsbrautanna. Ritstjórn skipuð þeim Gunnari Magnússyni deildarstjóra, Herði Ó. Helgasyni aðstoðarskólameistara og Jóni Árna Friðjónssyni deildarstjóra hóf störf í febrúar 2000. Ritstjórnin hefur séð um að samhæfa efni skólanámskrárinnar og færa það í þann búning sem hér gefur að líta. Námskráin er fjölfölduð á skrifstofu skólans en Prentverk Akraness prentaði útsíður.
    Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands 2000 felur í sér miklar breytingar sem gerðar hafa verið á íslenska skólakerfinu á undanförnum árum. Hún er auðvitað barn síns tíma og á eflaust eftir að breytast nokkuð á næstu misserum. Skólinn er í stöðugri þróun og áherslur í menntamálum breytast ört. Hvað sem því líður hefur tekist að vinna þessa fyrstu útgáfu skólanámskrár FVA á undravert skömmum tíma. Það sýnir vel hve dugmiklu starfsfólki skólinn hefur á að skipa.
    Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Vesturlands er í senn stefnuskrá og starfsáætlun skólans og er bindandi fyrir starfsmenn og nemendur hans. Vonandi verður hún leiðarljós og hvatning til góðra verka í námi og kennslu. Allir sem komið hafa að gerð þessarar fyrstu útgáfu hafi bestu þakkir fyrir.

Í júlí 2000, Þórir Ólafsson skólameistari
  

 

Please publish modules in offcanvas position.