Í dag fimmtudaginn 12. október fara fram skuggakosningar í nokkrum framhaldsskólum á landinu, þar á meðal í FVA. Skuggakosningar (e. Shadow elections) eru kosningar þar sem nemendur framhaldsskólanna fá að segja sína skoðun. Nemendur greiða atkvæði eins og þeir væru að ganga að kjörborðinu í alþingiskosningum og velja á milli þeirra framboða í Norðvesturkjördæmi sem hafa birt sína framboðslista. Kjördeildir eru opnar frá kl. 9:00 - 16:00. Niðurstöður verða gerðar opinberar eftir að kjörstöðum lokar á kjördag alþingiskosninga, 28. október nk. Það verður spennandi að bera saman niðustöðu úr kosningum unga fólksins og lýðræðislega niðurstöðu þjóðarinnar! Til þess að aðstoða nemendur við að gera upp hug sinn voru pallborðsumræður á sal í gær. Umræðurnar tóku um eina og hálfa klukkustund og mættu frambjóðendur frá Flokki fólksins, Viðreisn, Pírötum, Samfylkingunni, Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum, Framsóknarflokknum, Bjartri framtíð og Vinstri grænum. Nemendur í stjórnmálafræði skipulögðu og stjórnuðu umræðunum. Málefni ungs fólks voru efst á baugi og var meðal annars rætt um húsnæðismál, menntamál, lánasjóð námsmanna, geðheilbrigðismál og áfengiskaupaaldur. Við hvetjum alla nemendur til að nýta kosningarétt sinn og kjósa fyrir kl. 16:00 í dag.

Please publish modules in offcanvas position.